Oliver tekur Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn eftir harða, mikla og margra ára baráttu

Oliver Ormar Ingvarsson í BF Boganum í Kópavogi vann Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga karla um á sunnudaginn síðastliðinn. Oliver vann 6-4 í mjög jöfnum úrslitaleik gegn Haraldi Gústafssyni úr Skotfélagi Austurlands á Egilstöðum á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi.

Það var og er búinn að vera mikill bardagi milli Haraldar og Olivers síðustu ár um titilinn. Á Íslandsmeistaramótinu í fyrra var bardaginn um Íslandsmeistaratitilinn einnig á milli Olivers og Haraldar. Þar endaði úrslitaleikurinn jafn 5-5 og þurfti bráðabana til þess að ákvarða sigurvegara (einni ör skotið, sá sem hittir næst miðju vinnur). Oliver og Haraldur skutu báðir ör nákvæmlega jafn langt frá miðju og því þurfti að endurtaka bráðabanann, þar hafði Haraldur betur. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Olivers í opnum flokki (fullorðnir) en hann hefur áður unnið marga Íslandsmeistaratitla í U21 flokki.

Georg Elfarsson í BF Hróa Hetti í Hafnarfirði tók bronsið gegn Guðmundi Erni Guðjónssyni í BF Boganum. Leikurinn endaði 6-4 í óvenjulega harðri baráttu og einum “óvenjulegasta” úrslitaleik í manna minnum.

Oliver vann einnig gull í sveigboga parakeppni ásamt liðsfélaga sínum Marín gegn liðsfélögum sínum í Boganum (1).

Oliver og Marín mættust svo í kynlausri keppni, sem er ný viðbót til að greiða aðgengi kynsegin einstaklinga til þátttöku í íþróttinni og tækifæri fyrir keppni milli kvenna og karla, þar sem Oliver tók silfrið. Haraldur Gústafsson úr Skaust á Egilstöðum tók bronsið í kynlausri keppni 6-4 gegn Astrid Daxböck úr BF Boganum í Kópavogi.

 

Íslandsmeistarar karla

Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði 9-10 júlí. Veðrið á laugardeginum þegar að trissuboga og berboga flokkar kepptu var með því versta sem sést hefur á móti á Íslandi. Stormur og rigning fyrri part dagsins sem skánaði seinni partinn. Öll skotmörkin fuku niður í æfingaumferðum og það brotnuðu örvar hjá nokkrum keppendum. Undankeppni trissuboga og berboga var frestað svo að mögulegt væri að festa skotmörkin almennilega og bjarga þeim keppendum um örvar sem vantaði örvar upp á.

Það orsakaði mikla tímatöf í skipulagi mótsins sem var þegar þétt setið. Ekki var mögulegt að fresta mótinu til sunnudags þar sem ekki allir keppendur komust á þeim degi og búið var að auglýsa mótið á laugardeginum. Til að koma því fyrir að mótið gæti verið haldið var undankeppni stytt í 3 umferðir í stað 12 og tíminn til að skjóta örvunum var lengdur til að gefa keppendum færi á því að geta skotið örvunum. Sem betur fer lægði lítillega seinni hluta dags þegar að úrslitaleikirnir voru í trissuboga og berboga. Til samanburðar við storminn á laugardeginum var veðrið var frábært á sunnudeginum þegar að sveigbogaflokkar kepptu, en þó samt einhver vindur og rigning sem setti strik í skorin.