Marín Aníta Hilmarsdóttir úr Boganum í Kópavogi var að ljúka keppni á Veronicas Cup World Ranking Event í Kamnik í Slóveníu. Hún endaði í 33 sæti og gekk ágætlega á mótinu.
Skorið hennar í undankeppni mótsins var ekki mjög spennandi og undir markmiðum hennar, en nægilegt til að vera í topp 104 og halda áfram á mótið sjálft í leikina, sem skiptir mestu.
Í fyrsta leik (96 manna) vann Marín leikinn gegn Joana frá Póllandi 6-4. Marín hélt því áfram og Joana var slegin út.
Í öðrum útslætti (48 manna) mætti Marín Rúmensku Madalina, sá leikur var nokkuð jafn en Madalina náði sigrinum í síðustu umferð leiksins. Marín var því slegin út af mótinu og endaði í 33 sæti. Ef að annað hvort “úps” skotið hefði verið gott þá hefði Marín jafnað leikinn og þvingað bráðabana, ef bæði “úps” skotin hefðu verið góð þá hefði Marín unnið leikinn og haldið áfram.
Flestir ættu að þekkja hvernig útsláttarleikir virka, tveir mætast í leik, sá sem vinnur leikinn heldur áfram í keppni og sá sem tapar er búinn, sleginn út, hefur lokið keppni.
En heilt á litið fínt heimslistamót hjá Marín, en vonum að næsta mót Marínar verði enþá betra og færri “úps” örvar hehe. Það er Evrópubikarmótið í Króatíu í júní, en meira um það síðar.
Veronicas Cup er heimslistamót sem haldið er í Kamnik Slóveníu árlega af Slóvenska bogfimisambandinu í samstarfi við World Archery og World Archery Europe. Það var skemmtilegt veður aftur á Veronicas Cup þetta árið, en mótið virðist ekki sleppa við það að vera rigningarlaust og oft er hún mikil. Mótið var haldið 29 maí til 2 júní 2024, en það er venjulega haldið um apríl/maí mánaðarmót, en nauðsynlegt var að færa mótið tvisvar vegna skipulagsbreytinga á öðrum heimslistamótum sem tengdust undankeppni Ólympíuleika.