Marín Aníta Hilmarsdóttir 17 ára í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi er íþróttakona BFSÍ annað árið í röð.
Marín varð Norðurlandameistari með miklum yfirburðum í U18 flokki í Ólympískum sveigboga í júlí, miðað við skor hefði Marín einnig sigrað U21 flokkinn og því hægt að segja að hún sé efnilegasta stelpa í Ólympískum sveigboga á Norðurlöndum.
Hæsta skor Marínar í opnum flokki (fullorðinna) á árinu var 616 stig á Íslandsmeistaramóti í júlí, þar sem hún sló Íslandsmetið sem hún setti sjálf mánuði fyrr í París á lokakeppni um þátttökurétt á Ólympíuleika í Tókýó. 616 er einnig hæsta skor af öllum landsmeistaramótum fullorðinna á norðurlöndum árinu. Lágmörk fyrir Ólympíuleika eru 605 stig og meðal skor á Ólympíuleikum síðustu 20 ár er 626. Því er vafalaust að hér sé um að ræða gífurlega efnilegan ungan keppanda.
Marín sló Íslandsmet einstaklinga þrisvar í U18, sex sinnum í U21 og tvisvar í opnum flokki (fullorðinna) á árinu ásamt fjölmörgum liðametum með félagi sínu og landsliði. Marín vann Íslandsmeistaratitil fullorðinna án þess að tapa stigi og skoraði fullkomið skor í síðustu umferðinni með stæl
Marín vann öll önnur innlend mót sem hún keppti í á árinu.
Þetta var fyrsta ár Marínar í A/B landsliðsverkefnum BFSÍ og tók hún þátt á HM ungmenna, Heimsbikarmóti og lokakeppni um sæti á Ólympíuleika í Tókýó þar sem hún náði m.a. lágmarksviðmiðum fyrir Ólympíuleika þátttöku en vann ekki þátttökurétt.
2022 er Marín áætluð til keppni á:
- EM ungmenna innandyra í Slóveníu í febrúar
- EM (fullorðina) í Þýskalandi í júní
- EM ungmenna utandyra í Bretlandi í ágúst
- Heimsbikarmót (fullorðina) í París í júní
- ásamt nokkrum öðrum alþjóðlegum mótum.
Marín hafði upprunalega sett markmiðið sitt á ÓL ungmenna í Senegal 2022 en þeim var aflýst vegna Covid. Lágmark fyrir ÓL ungmenna er 600 og hæsta skor Marínar í U18 flokki 2021 var 633 (meðalskor á ÓL ungmenna er 630). Marín hefur m.a. sett miðið á að vinna þátttökurétt á Evrópuleika 2023 og Ólympíuleika 2024.
Áhugavert um Marín er að 2018 þegar hún tók þátt í sínu fyrsta Norðurlandameistaramóti ungmenna 14 ára gömul var hún í næst síðasta sæti. Þremur árum síðar er hún í norðurlandameistari með töluverðum yfirburðum og því um stórt hopp í getustigi á stuttum tíma. Þrautseigja og að hafa gaman af því sem maður gerir drífur árangur.
Íþróttafólk ársins er valið miðað við tölfræðilegan útreikning á frammistöðu íþróttafólks á mótum og er því eins hlutlaust val ferli og mögulegt er. Tölfræðin fyrir árið 2021 var minni en venjulega vegna Covid-19 en nægilega mikil til þess að ekki þurfti að virkja ákvæði um “Ófyrirséð atvik” eins og gert var árið 2020 þegar öllum alþjóðlegum mótum var aflýst og erfitt var að halda innlend mót.
Tímabilið samkvæmt reglugerð til þess að ná afrekum var 1 október 2020 til 30 september 2021. Undir venjulegum kringumstæðum væru engin mót í október til desember sem gætu haft áhrif á tölfræði íþróttafólks ársins, en niðurstaða úr Íslandsmeistaramóti innanhúss 2021 kemur inn í lok nóvember og mun því falla inn í tölfræði næsta tímabils.
Vert er að nefna að síðustu 4 ár hafa 7 af 8 af þeim sem hlotið hafa titilinn “íþróttafólk ársins” verið undir 21 árs en meðalaldur íþróttafólks ársins 2017 og fyrr var um fertugt. Mikil kynslóða skipti eru í gang í íþróttinni og hæfileikamótun sem hófst 2016/17 er farin að skila góðum árangri.