Ísland með tvö lið í 8 liða úrslitum á EM fullorðinna í bogfimi, gætu orðið fjögur samtals ef sveigboga kk og kvk liðin vinna í 16 liða úrslitum á morgun

Trissuboga karla og kvenna landsliðin munu keppa í 8 liða úrslitum á EM innandyra í bogfimi á morgun. Trissuboga karla liðið var í 8 sæti í undankeppni og mun mæta Frakkalandi sem voru efstir í undankeppni EM. Trissuboga kvenna liðið var í 7 sæti í undankeppni og mun því leika gegn Ítalíu sem var í 2 sæti í undankeppni. Við getum sagt að litlar líkur séu á að Ísland vinni þessa leiki þar sem um er að ræða gífurlega sterk lið í báðum tilfellum. En ef Ísland skyldi vinna annað hvorn leikinn þá mun það lið keppa um verðlaunasæti á EM fullorðinna.

Sveigboga karla liðið var í 14 sæti í undankeppni og mun því leika í 16 liða úrslitum gegn Úkraínu sem var í þriðja sæti í undankeppni. Úkraína er með gífurlega sterkt lið. Miðað við erfiðleikana sem sveigboga karla liðið átti við að stríða í undankeppni getum við sagt að ólíklegt sé að Ísland muni vinna þennan leik á morgun og komast í 8 liða úrslit á EM í sveigboga karla. (þó að vert sé að nefna að Halli hafi staðið sig flott á mótinu og sló Íslandsmetið í 50+ og var um tímabil útlit fyrir að hann myndi tryggja sér sæti í lokakeppni einstaklinga)

Sveigboga kvenna liðið var í 9 sæti í undankeppni og mun því leika í 16 liða úrslitum gegn Moldovu sem var í áttunda sæti í undankeppni. Tölfræðilega séð eru mun meiri líkur á því að Moldova vinni þennan leik, en ekki er hægt að segja að engar líkur séu til staðar fyrir Íslensku stelpurnar. Þær geta sigrað í sínu besta “dagsformi” eins og það kallast.

Það gekk ekki eins vel í einstaklingskeppni fullorðinna en allir Íslensku keppendurnir í opnum flokki eru dottnir úr einstaklingskeppni, nema Guðbjörg Reynisdóttir sem mun keppa í 16 manna úrslitum í kvöld.

Í sveigboga karla og kvenna komst enginn í lokakeppni eftir undankeppni mótsins. En allir í trissuboga karla og kvenna fóru í lokakeppni en voru slegnir út í fyrsta útslætti lokakeppni.

Íþróttastjóri BFSÍ sagði: “Við erum alltaf mjög ánægð með að vera með lið í úrslitum á Evrópumeistaramóti, og því bara enn meiri ánægja þegar þau eru 4 Íslensku liðin í úrslitum. Við erum ekki óánægð með niðurstöðuna á heildina litið í einstaklingsgreinum, við þurfum að vinna aðeins í okkar fólki í sveigboga en það kemur með tímanum við erum enþá svo ungt samband. Í trissuboga voru andstæðingar Íslensku keppendana, sem komust í 32 manna lokakeppni á EM, allt keppendur af allra hæsta stigi sem mögulegt var. Flestir þeirra eru margfaldir Evrópu og/eða heimsmeistarar. Ef maður er sleginn út af EM af slíkum aðilum er það í raun ánægjulegt af því að þetta eru þeir allra bestu. Sem dæmi var Gummi Guðjónsson að keppa á móti Mike Schloessers frá Hollandi. Gummi náði að jafna fyrstu umferðina en svo var “Mister Perfect”, eins og Mike er kallaður af bogfimiheimssambandinu, bara að leika sér inn í tíuni og skaut ekki feil skot eftir það. Það er erfitt að sigra fullkomnun.”

Feril saga Mike:
https://extranet.worldarchery.sport/biographies/PrintBiography.php?WaId=6998

Evrópumeistaramót innandyra er haldið í Lasko í Slóveníu 14-19 febrúar. Evrópumeistaramótið er þétt setið og keppnin er lengri en 12 klukkustundir á hverjum degi. Stór hópur Íslenskra keppenda er að keppa á mótinu og gengið hefur verið mjög gott.