Ísland keppir um 2 brons á Evrópubikarmóti ungmenna

Undanúrslit liða voru haldin í dag á Evrópubikarmótinu og Ísland mun eiga tvö lið í brons úrslitum Evrópubikarmótsins föstudaginn næstkomandi.

Sýnt verður beint frá báðum brons leikjum Íslands á European Youth Cup (Evrópubikarmóti ungmenna) á föstudaginn 9 júní hér á youtube

Bronsleikur trissuboga blandaðra liða er milli Frakklands og Íslands og verður kl 09:40 að staðartíma 9 júní (07:40 að Íslenskum tíma). Blandað lið (mixed team á Ensku) samanstendur af hæst skorandi karli og konu frá hverri þjóð í þeim flokki. Ragnar Smári Jónasson og Freyja Dís Benediktsdóttir skipa liðið.

Í undanúrslitum trissuboga mixed team mætti Ísland Ítalíu. Leikurinn var mjög jafn og Ísland og Ítalía skiptust á forskotinu, en Ítalía hafði betur á endanum 146-144.

Brons leikurinn í trissuboga kvenna liða verður á milli Íslands og Ítaliu kl 10:20 að staðartíma 9 júní (08:20 að Íslenskum tíma). Lið samanstendur af þremur keppendum af sama kyni. Freyja Dís Benediktsdóttir, Eowyn Marie Mamalias og Þórdís Unnur Bjarkadóttir skipa liðið.

Í undanúrslitum trissuboga kvenna í dag mætti Ísland Frakklandi. Þar hafði Franska liðið betur 230-210, en þær Frönsku voru að skjóta vel en okkar stelpur skoruðu því miður lægsta skorið sitt í liðakeppni á þessu ári í leiknum. Stelpurnar okkar munu því keppa um bronsið í þetta sinn. Vert er að geta að stelpurnar okkar unnu silfur á Evrópubikarmóti ungmenna í Slóveníu í maí og unnu gull á heimslistamóti fullorðinna líka á þessu ári.

Á morgun verður einstaklingskeppni á mótinu og vonandi komast einhverjir Íslendingar líka í úrslit aftur þar eins og á síðasta Evrópubikarmóti 😊

Evrópubikarmót ungmenna er í þetta sinn haldið í Sion í Sviss og er um viku langt. Íslensku keppendurnir flugu degi fyrr út til þess að keppa á landsmóti í Sviss þar sem þau unnu til 5 einstaklingsverðlauna.

Unnu 5 verðlaun á landsmóti í Sviss

Niðurstöður fyrir European Youth Cup Circuit (Evrópubikarmótaröð ungmenna) eru einnig komnar út. Fjórir Íslenskir keppendur voru í top 10 í Evrópubikarmótaröð ungmenna á þessu ári:

  • Ragnar Smári Jónasson í 4 sæti í trissuboga U21 kk
  • Freyja Dís Benediktsdóttir í 5 sæti trissuboga U21 kvk
  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir í 6 sæti í trissuboga U21 kvk
  • Aríanna Rakel Almarsdóttir í 7 sæti í trissuboga U18 kvk

Niðurstöðurnar byggjast á samanlögðu skori úr undankeppni á  Evrópubikarmótum ungmenna á þessu ári.

Ísland hafnaði í 11 sæti jafnt Króatíu í heildar niðurstöðum liða á European Youth Cup Circuit á þessu ári (af um rúmlega 30 Evrópuþjóðum sem kepptu á Evrópubikarmótunum á þessu ári).

Það eru margar niðurstöður af mótinu og ekki hægt að fjalla um allt, en þetta er það helsta sem vert er að geta hingað til. Mótinu lýkur svo alveg á laugardaginn næsta.

Endilega að fylgjast með úrslita leikjum Íslands. Áfram Ísland!!!🎉🏹🎯