Heimsbikarmót Berlin Heims- og Evrópumet fyrir Ísland?

Fyrsti dagurinn á Berlin heimbikarmótin er lokið og gengið er gott.

Albert Ólafsson og Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir eru að keppa fyrir Íslands hönd og góðar líkur á því að þau hafi sett heims- og evrópumet í undankeppni Masters blandaðri liðakeppni fyrir Ísland.

Við erum búin að tilkynna metið til heimssambandins og erum að bíða eftir formlegri staðfestingu frá þeim.

Gífurlegur vindur var á mótinu sem sást vel á skorinu hjá öllum íþróttamönnunum á mótinu. Hér fyrir neðan er hægt að sjá mynd þar sem Bandaríska liðið hætti að reyna að láta bogana standa vegna vindsins og lögðu þá á jörðina svo að þeir væru ekki alltaf að detta.

Albert skoraði 586 (59 sæti) og Sveinbjörg 454 stig (42 sæti) í undankeppninni sem er samtals 1040 stig í trissuboga blandaðri liðakeppni sem er Íslandsmet í 50+ flokki og ætti að vera staðfest sem heimsmet bráðlega.

Sveinbjörg sló einnig Íslandsmetið í trissuboga kvenna 50+ þrátt fyrir vindinn en sagði í vísukorni “ég bað til náttúruaflanna í bundnu máli í dag : Vindur vindur vinu minn, vertu nú til friðs um sinn svo ég fái í fyrst að njóta fyrir land mitt Ísland skjóta”

Albert lenti í útsláttarkeppni á móti Pol Lamesch frá Lúxemborg þar sem hann tapaði 124-133 og endaði í 57 sæti á mótinu.

Sveinbjörg keppir í sinni útsláttarkeppni í fyrramálið á móti Paige Pearce frá Bandaríkjunum (um 8:00 leitið á Íslenskum tíma)

Parið keppir svo í kringum hádegið á móti Belgíu í blandaðri liðkeppni. Belgíska liðið Sarah og Brend unnu Silfur í blandaðri liðakeppni á Shanghai heimsbikarmótinu fyrr á árinu. Hægt verður að fylgjast með útslættinum hér. https://worldarchery.org/competition/18159/berlin-2019-archery-world-cup#/match/CX/team/50

Ef að Heimsmetið og Evrópumetið er staðfest af heimssambandinu þá er þetta fyrsta Heimsmet og fyrsta Evrópumet sem Ísland hefur sett í bogfimi. Og ég spyr er hægt að biðja um betri árangur en það?

Skrifar varaformaður Bogfiminefndar ÍSÍ Guðmundur Guðjónsson