Heba Róbertsdóttir Bikarmeistari BFSÍ 2024

Heba Róbertsdóttir varð Bikarmeistari BFSÍ í berboga 2024 með nokkuð góðri forystu 1475 stig á móti 1387 stigum Baldurs Freyr Árnasonar sem var í öðru sæti Bikarmótaraðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Heba verður Bikarmeistari.

Fjórir efstu í Bikarmótaröð BFSÍ árið 2024 voru:

  1. Heba Róbertsdóttir 1475 stig BFB Kópavogur
  2. Baldur Freyr Árnason 1387 stig BFB Kópavogur
  3. Sveinn Sveinbjörnsson 1379 stig BFB Kópavogur
  4. Guðbjörg Reynisdóttir 1340 stig BFB Hafnarfjörður

Vert er að geta að tvö efstu Heba (18 ára) og Baldur (16 ára) slógu bæði Íslandsmetin í meistaraflokki á Bikarmótum BFSÍ á tímabilinu. Þannig að ansi sterkir keppendur að koma upp í íþróttinni í ungmennaflokkum sem eru búnir að yfirtaka árangur fyrri kynslóðar snemma á ferlinum. Heba er búin að vera að dragast nær og nær Evrópumetinu í U21 flokki sem er 513 stig, en besta skor Hebu í keppni hingað til var á Bikarmóti BFSÍ í janúar með 504 stig sem er einnig núverandi Íslandsmetið í meistaraflokki og U21 flokki.

Bikarmótaröð BFSÍ 2023-2024 innandyra samanstóð af fjórum Bikarmótum sem haldin voru í Bogfimisetrinu í október, nóvember, desember og janúar.

Bikarmeistari BFSÍ í hverri keppnisgrein eru þeir sem ná hæsta samanlagða árangri af þremur bestu skorum úr Bikarmóta BFSÍ á tímabilinu.

Keppt er í bikarmótum BFSÍ óháð kyni, semsagt allir á móti öllum.

Bikarmeistari BFSÍ titlinum fylgir einnig 50.000.kr í verðlaunafé, sem Heba mun án vafa nota í landsliðsverkefni sín.

Bikarmeistarar

Á döfinni á næstu mánuðum hjá Hebu eru:

  • EM innandyra í Krótíu í febrúar
  • Íslandsmeistaramót í mars
  • NM ungmenna í júlí