Fimm keppendur á leið á heimsbikarmótið í París og lokaundankeppni Ólympíuleika.

Tvö mót verða haldin á sama tíma í París á þessum tíma, lokakeppni um sæti á Ólympíuleika 18-21 júní þar sem er aðeins keppt í sveigboga og annað mót heimsbikarmótaraðarinnar 21-27 júní.

Þrír þátttakendur frá Íslandi taka þátt í lokakeppni um sæti á Ólympíuleika og heimsbikarmótinu. Þau eru Marín Aníta Hilmarsdóttir, Oliver Ormar Ingvarsson og Guðmundur Örn Guðjónsson. Ólíklegt telst að Guðmundur keppi vegna veikinda. Ef tekið er mið af þeim sterku bogfimiþjóðum sem hafa ekki unnið sæti á Ólympíuleikana fyrir lokakeppnina verður að segjast tölfræðilega ólíklegt að Ísland nái sæti á Ólympíuleikana í Tokyo en ekki ómögulegt.

Tveir keppendur bætast við hópinn þegar að lokakeppni um Ólympíuleika er lokið og heimsbikarmótið hefst. Hjónin Albert Ólafsson og Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir. Þau keppa bæði í trissuboga og eiga saman bæði heimsmetin og bæði Evrópumetin í trissuboga parakeppni öldunga (master mixed team). Þau ætla sér að bæta metin í París en þeim hefur farið mikið fram á síðustu árum og talið líklegt að ef að verðurfar á mótinu verður gott að þeim muni takast það.

Frakkland er talið Covid hááhættusvæði sem stendur en það mun vonandi lagast fyrir upphaf mótsins með útbreiðslu bóluefnis um Evrópu. Mótshaldarar hafa lagt sig alla fram við skipulag mótsins og verður það haldið í svokallaðri “bubble”. Þátttakendur mótsins verða sóttir á flugvöllinn, keyrðir á hótel, á völlinn, á hótel, á völlinn og svo heim. Þeim er ekki heimilt að fara út fyrir búbbluna fyrr en þátttöku þeirra lýkur. Mótið  er talið gífurlega mikilvægt af Frönskum yfirvöldum og fær því að njóta allra undanþága sem til eru, enda munu næstu Ólympíuleikar 2024 verða haldnir í París.