Desember mótinu lauk fyrir stuttu.
Áætlað er að mótaröðin muni halda áfram á næsta ári með sama eða svipuðu formi. Mótaröðin er í þróun og uppbyggingu og því góðar líkur á því að hún muni breytast og þróast.
Desember mótið var fyrsta Bogfimisetrid Youth Series þar sem ekkert Íslandsmet var slegið. Hægt er að finna úrslit af mótinu á http://www.ianseo.net/Details.php?toId=6578
Þátttakan var minni á Desember mótinu með aðeins 19 skráningum enda var mög stutt á milli nóvember mótsins og desember mótsins á þessu ári. Yfirleitt hafa skráningar verið nálægt 30 á mótunum. Mótaröðin er nýbyrjuð og því gert ráð fyrir því að þátttaka eigi eftir að aukast mikið á næsta ári. Fyrsta mótið var í september 2019.
Halla Sól Þorbjörnsdóttir sýndi gífurlega framför með skorið 556 og tók gullið í U16 sveigboga kvenna 4 stigum hærri í skori en Marín. Íslandsmetið í sveigboga kvenna U16 var í byrjun ársins 2019 534 stig og hafði staðið í 6 ár. Marín og Halla eru því hæst skorandi stelpur á sínum aldri frá upphafi bogfimi á Íslandi. Það verður gaman að sjá hvort að þriðja stelpan á svipuðu getustigi bætist við í sveigboga kvenna, ef það gerist og framför þeirra heldur áfram er mjög björt framtíð fyrir sveigboga kvenna landsliðið í framtíðinni.
Kristján Kári Kristjánsson sýndi mikla yfirburði í berboga flokki karla U13 en hann var 250 stigum hærri en næsti strákur. U13 flokkur á mótinu keppir á sömu vegalengd og skífustærð og U16 flokkur. Hann var ekki langt frá Íslandsmetinu en metið er 449 stig, Kristján skoraði 433 stig.
Og við gleymdum aftur að taka myndir af mótinu.