Baldur Freyr Árnason úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi kom gífurlega sterkur inn á bikarmót BFSÍ í nóvember og tók einstaklings Íslandsmetið í berboga meistaraflokki, U21 og U18 flokki allt á einu bretti með skorið 508!!! Sem er hæsta skor sem Íslendingur hefur skorað í berboga flokki óháð kyni eða aldri.
Ásamt því átti Baldur hlut í tveim nýjum Íslandsmetum í blandaðri félagsliðakeppni í meistaraflokki og einnig U21 flokki ásamt liðsfélaga sínum Hebu Róbertsdóttir. Semsagt fimm Íslandsmet í heildina sem Baldur sló á Bikarmóti BFSÍ í nóvember og tvö af þeim í meistaraflokki, þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára gamall!!! Baldur á nú öll einstaklings Íslandsmetin í öllum aldursflokkum í berboga innandyra sem hann getur keppt um (35 ár í að taka 50+ metið hehe)
Þó að gengið í undankeppni mótsins hafi skilað besta árangri sem Íslendingur hefur náð í berboga þá var Baldur ekki eins heppinn í útsláttarkeppni bikarmótsins, Baldur tapaði leiknum sínum í undanúrslitum með littlum mun 6-4 þrátt fyrir að hafa skotið vel, en sá leikur var gegn Guðbjörgu Reynisdóttir (Hrói) sem er tvöfaldur Norðurlandameistari og var í fimmta sæti á síðasta EM og á lengstu sigurröð Íslandsmeistaratitla í íþróttinni, þannig að ekkert lamb að leika sér við. Baldur keppti því um bronsið í meistaraflokki og vann svo brons úrslitaleikinn 6-2.
En þrátt fyrir það gífurlega sterk frammistaða hjá Baldri í undankeppni bikarmótsins og verður spennandi að fylgjast með gengi hans á EM innandyra í febrúar í Króatíu þar sem hann mun keppa í berboga U21 liðinu. Taldar eru góðar líkur á því að Ísland komi heim með verðlaun af því EM í liðakeppni og kannski tekur Baldur heim verðlaun í einstaklingskeppni líka? Meira um það síðar 😉