Baldur, Alfreð og Valgerður sigruðu janúar Bikarmót BFSÍ

Síðasta Íslandsbikarmóti BFSÍ á innandyra tímabili Bikarmótaraðar BFSÍ 2023-2024 var haldið í dag. Mótið var skemmtilegt og spennandi og munaði oftar en ekki mjóu á hver sigurvegarar yrðu og þurfti bráðabana til þess að ákvarða sigurvegara í tveim af þremur keppnisgreinum. Baldur Freyr Árnason, Alfreð Birgisson og Valgerður E. Hjaltested stóðu uppi sem sigurvegarar. Einnig voru nokkur Íslandsmet slegin á mótinu.

Úrslit sveigboga:

  1. Valgerður E. Hjaltested BFB Kópavogur
  2. Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir BFB Kópavogur
  3. Marcin Bylica BFB Kópavogur

Valgerður sigraði Önnu með yfirburðum 6-0 í gull úrslitum enda var hún talin sigurstranglegust af keppendum í sveigboga fyrir upphaf mótsins. En örvasætið hjá Önnu brotnaði í fyrstu umferð leiksins, sem kom þó ekki að sök í leiknum þar sem að starfsfólk mótsins aðstoðaði hana við að lagfæra atriðið. Marcin Bylica hefur verið að sýna miklar framfarir nýlega og skoraði meðal annars yfir 500 stigum í undankeppni mótsins en færri en 20 Íslendingar hafa komist yfir 500 í skori í sveigboga í sögu íþróttarinnar. Marcin vann brons leikinn sinn örugglega gegn Georg Elfarssyni 7-1, en Georg var orðinn sjáanlega þreyttur í brons leiknum og þarf að vinna í úthaldinu sínu.

Úrslit trissuboga:

  1. Alfreð Birgisson ÍFA Akureyri
  2. Eowyn Maria Mamalias BFHH Hafnarfjörður
  3. Þórdís Unnur Bjarkadóttir BFB Kópavogur

Í gull úrslitaleika Alfreðs og Eowyn enduðu leikar jafnir 143-143 og því þurfti bráðabana til þess að ákvarða sigurvegara. Ein ör nær miðju vinnur, Alfreð skaut í 10 og Eowyn í 9, Alfreð spurði svo “Var þetta góð tía?”. Þórdís Unnur Bjarkadóttir vann brons leikinn gegn Freyju Dís Benediktsdóttir 141-139

Úrslit berboga:

  1. Baldur Freyr Árnason BFB Kópavogur
  2. Guðbjörg Reynisdóttir BFHH Hafnarfjörður
  3. Heba Róbertsdóttir BFB Kópavogur

Einnig þurfti að útkljá gull úrslitaleik Baldurs og Guðbjargar með bráðabana eftir að leikar enduðu 5-5. Nær miðju vinnur og þar skoraði Baldur 7 stig og Guðbjörg svaraði með 5 stig. Baldur tók því sigurinn í Berboga á Bikarmótinu í janúar. Heba Róbertsdóttir vann spennandi brons leik við Svein Sveinbjarnarson 6-4, það er ekki oft sem maður sér 78 ára karl keppa á móti 18 ára stelpu á jöfnum grundvelli. Heba sló Íslandsmetið í meistaraflokki og U21 í undankeppni mótsins með 504 stig og var ekki langt frá því að taka Evrópumetið sem er 513 stig.

Íslandsmet á Íslandsbikarmótinu í janúar:

  • Berbogi kvenna M.fl. – Heba Róbertsdóttir BFB Kópavogur
  • Berbogi kvenna U21 – Heba Róbertsdóttir BFB Kópavogur
  • Berboga lið (unisex) – BFB Kópavogur
    • Heba Róbertsdóttir
    • Sölvi Óskarsson
    • Sveinn Sveinbjörnsson
  • Sveigboga lið (unisex) – BFB Kópavogur
    • Valgerður E. Hjaltested
    • Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir
      Marcin Bylica
  • Trissuboga lið (unisex) – BFB Kópavogur
    • Freyja Dís Benediktsdóttir
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Ragnar Smári Jónasson

Bikarmótið í janúar var fyrsta mótið sem haldið var síðan að breyttar reglur um félagsliðakeppni tóku gildi hjá BFSÍ. Þar sem breytt var úr kynjuðum liðum í liðakeppni óháða kyni.

Á döfinni:

Næsta mót á dagskrá hjá BFSÍ er Evrópumeistaramótið innandyra í meistaraflokki og U21 flokki þar sem að BFSÍ mun eiga 31 keppenda.

Svo eru Íslandsmeistaramótin innandyra í mars og mögulegt að skrá sig á þau hér https://mot.bogfimi.is/