Anna María tekur titilinn til Akureyrar á Íslandsmóti Ungmenna

Anna María Alfreðsdóttir úr ÍF Akur sigraði í gull úrslitum trissuboga kvenna U18 á Íslandsmóti Ungmenna utanhúss um helgina. Mótið var haldið 27 Júní á Víðistaðatúni í Hafnarfirði af Bogfimisambandi Íslands.

Í gull úrslitum keppti Anna á móti Eowyn Marie Mamalias úr BF Hróa Hetti. Þar sigraði Anna í jafnri keppni 119-116.

Anna var lægri í undankeppninni með 597 stig á móti 604 hjá Eowyn. Það er lítill munur og má segja að stelpurnar hafi verið mjög jafnar í undankeppninni.

Þess má geta að Anna María bætti bæði Íslandsmetið í U18 og U21 trissuboga kvenna á Stóra Núps mótinu um 2 vikum fyrir Íslandsmót ungmenna. En bæði þau met átti Eowyn áður.

Eowyn og Anna María hafa verið í harðri baráttu í U18 flokki síðasta árið og Eowyn hefur oftast haft betur í þeim bardögum. En það er útlit fyrir að það sé að breytast og Anna muni taka forskotið. Anna er þegar byrjuð með því að taka 2 erfið Íslandsmet og titilinn af Eowyn. Hvernig mun framtíðin fara? Það veit enginn en það verður spennandi að fylgjast með þeim hérlendis og erlendis.

Sýnt var beint frá gull úrslitum á Íslandsmóti ungmenna og hér fyrir neðan er hægt að sjá úrslita leik Önnu og Eowyn. Hægt er að sjá heildarúrslit á ianseo.net