Fyrsta mót í Stóri Núpur Mótaröðinni var haldið dag laugardaginn 28 maí. Mótaröðin samanstendur af þremur mótum sem haldin verða í sumar í Árnesi.
Veðrið í undankeppni mótsins var með því besta sem þekkist á Íslandi, sól, heitt og lítill sem engin vindur. Fullkomnar aðstæður til að setja met.
Anna María Alfreðsdóttir í ÍF Akur átti hreint frábæran dag í undankeppni mótsins og bætti Íslandsmet fullorðinna (Opinn flokkur) og U21 um fjögur stig með skorið 683. Eldri metin voru 679 stig sem Anna var nýbúin að slá á Veronicas Cup Heimslistamótinu í Slóveníu 5-8 maí, þar sem hún vann einnig brons verðlaun fyrir Ísland. Anna María er besta von Íslands til þess að vinna þátttökurétt á Evrópuleikana 2023 í trissuboga kvenna.
Alfreð Birgisson í ÍF Akur átti einnig mjög góðan dag með skorið 673 sem er jafnt núverandi Íslandsmeti trissuboga karla og hans persónulega besta skor.
Það kemur þá líklega fáum á óvart miðað við gengi þeirra feðgina að Anna og Alfreð voru efst í blandaðri liðakeppni trissuboga (1 kk + 1kvk einnig kallað parakeppni) með nýtt Íslandsmet félagsliða 1356 stig.
Marín Aníta Hilmarsdóttir í BF Boginn átti einnig góðan dag með skorið 593. Sem er ekki mjög langt frá Íslandsmetinu hennar sem er 616 stig, en til samanburðar er lágmarksskor fyrir Evrópuleika 2023 er 600 stig og Ólympíuleika 2024 er 610 stig. Miðað við að utandyra tímabilið á Íslandi er nýbyrjað er útlit fyrir að Marín sé á góðri leið upp í sitt besta form. En hún fór hægt af stað í byrjun sumars.
Við munum sjá meira frá Önnu, Alfreð, Marín og 9 öðrum Íslendingum á Evrópumeistaramótinu sem byrjar næstu helgi í Munich Þýskalandi.
Freyja Dís Benediktsdóttir í BF Boginn var aðeins 6 stigum frá því að slá Íslandsmetið í trissuboga kvenna U18 á mótinu. En Freyja hefur verið að dansa í kringum það að taka metið í sumar, hún var tveimur stigum frá metinu á Veronicas Cup World Ranking Event 5-8 maí, og því líklegt að Freyja muni tryggja sér U18 metið á þessu ári. Anna María á U18 metið sem stendur en hún setti metið fyrir tveim árum 17 ára gömul á Stóra Núpi. Mikil vinaleg samkeppni er á milli Freyju og Önnu.
Eftir undankeppni (sem notuð er til þess að raða íþróttafólki upp í útsláttarkeppni) jókst vindurinn frekar mikið og skorin lækkuðu gífurlega í samræmi við það. Margir keppendur voru að skora með lægstu skorum sem þeir hafa skorað í útsláttum, sumir þurftu að miða framhjá skotmarki sínu til að hitta á það og margar örvar misstu marks í vindhviðum. Þrátt fyrir það skemmtu sér allir konunglega enda frábært veður þrátt fyrir vindinn seinni part dagsins.
Sigurvegarar fyrsta mótsins í Stóri Núpur mótaröðinni 2022 eftir útsláttarkeppni mótsins voru:
- Anna María Alfreðsdóttir ÍF Akur – Trissubogi kvenna
- Alfreð Birgisson ÍF Akur – Trissubogi karla
- Marín Aníta Hilmarsdóttir BF Boginn – Sveigbogi kvenna
- Dagur Örn Fannarsson BF Boginn – Sveigbogi karla
- Izzar Arnar Þorsteinsson ÍF Akur – Berbogi
Vafalaust var leikmaður mótsins Anna María Alfreðsdóttir.
Næsta mót í Stóri Núpur Mótaröðinni er 18 júní og skráningu lýkur 11 júní.