Anna María Alfreðsdóttir með 100% í mati á þjálfaranámskeiði Alþjóðabogfimisambandsins

Akureyringurinn Anna María Alfreðsdóttir í ÍF Akur dúxaði á mati prófdómara á alþjóðlegu þjálfaranámskeiði stigi 1 um helgina eftir viku langt námskeið á vegum Alþjóðabogfimisambandsins (World Archery – WA), Bogfimisambands Íslands (BFSÍ) og Ólympíusamhjálpinni (Olympic Solidarity – OS).

Anna fékk 20 af 20 mögulegum stigum í matinu en til þess að ná réttindum þurfti hún 12 af 20 stigum. Aðeins tveir þátttakendur á námskeiðinu náðu fullkomnu skori og Anna var ein af þeim. Anna keppir í trissubogaflokki og hefur líklega aldrei skotið jafn mikið á sveigboga/berboga á ævinni eins og hún gerði á námskeiðinu, þar sem hún fann sér sinn bogaflokk (trissuboga) snemma. En nú ætti Anna að hafa góða þekkingu til þess að geta þjálfað alla bogaflokka. Hún er best Íslendinga í trissuboga og er á leið á EM ungmenna 14-21 ágúst 😉

Endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár og svo er krafa um endurmenntun, líklega í formi uppbótarnámskeiðs, en ólíklegt að þess þurfi hjá þessum þjálfara þar sem áætlað er að hann muni taka þátt á stig 2 námskeiði World Archery sem áætlað er að verði haldið í ágúst 2023.

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina (Olympic Solidarity (OS)) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Þjálfarakennari World Archery á námskeiðinu var Christos Karmoiris frá Grikklandi. Prófdómarar World Archery á námskeiðinu voru Christos og Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ sem þriðja stigs WA þjálfaramenntaður.

Frekari fréttir af námskeiðinu er hægt að finna á archery.is