Valgerði gekk vel á Veronicas Cup en var stoppuð af Ólympíubronsi

Valgerður Hjaltested Gnúpverji úr Boganum í Kópavogi var að ljúka keppni á Veronicas Cup World Ranking Event í Kamnik í Slóveníu. Hún endaði í 17 sæti og gekk nokkuð vel á mótinu.

Skorið hennar í undankeppni mótsins var ekki mjög spennandi en nægilegt til að vera í topp 104 og halda áfram á mótið sjálft í leikina.

Í fyrsta leik (96 manna) vann Valgerður leikinn gegn Kasandra frá Moldóvu örugglega 6-2. Valgerður hélt því áfram og Kasandra slegin út.

Í öðrum útslætti (48 manna) mætti Valgerður Ungversku Lili, sá leikur var mjög jafn en Valgerður náði samt sigrinum eftir fjórðu umferð leiksins. Valgerður hélt því áfram í næsta leik og Lili var slegin út af mótinu.

Valgerður var á endanum slegin út af Veronicas Cup af Lucilla Boari frá Ítalíu 6-0, í þriðja leik (32 manna leikjum). En við gefum Völu séns á þeim leik þar sem að Lucilla vann brons á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021 og var því talin mun líklegri til að vinna leikinn 😉 Valgerður endaði því í 17 sæti á Veronicas Cup í lokaniðurstöðum

En heilt á litið flott heimslistamót hjá Valgerði, það þurfti bara verðlaunahafa af síðustu Ólympíuleikum til að stöðva hana.

Flestir ættu að þekkja hvernig útsláttarleikir virka, tveir mætast í leik, sá sem vinnur leikinn heldur áfram í keppni og sá sem tapar er búinn, sleginn út, hefur lokið keppni.

Veronicas Cup er heimslistamót sem haldið er í Kamnik Slóveníu árlega af Slóvenska bogfimisambandinu í samstarfi við World Archery og World Archery Europe. Það var skemmtilegt veður aftur á Veronicas Cup þetta árið, en mótið virðist ekki sleppa við það að vera rigningarlaust og oft er hún mikil. Mótið var haldið 29 maí til 2 júní 2024, en það er venjulega haldið um apríl/maí mánaðarmót, en nauðsynlegt var að færa mótið tvisvar vegna skipulagsbreytinga á öðrum heimslistamótum sem tengdust undankeppni Ólympíuleika.

Næsta mót Valgerðar er Evrópubikarmótið í Króatíu í júní, en meira um það síðar.