Þorsteinn Halldórsson tvöfaldur Íslandsmeistari

Þorsteinn Halldórsson úr Bogfimifélaginu Hróa Hetti í Hafnarfirði (BFHH) vann Íslandsmeistaratitlinn í trissuboga á Íslandsmeistaramótinu utandyra í bogfimi (ÍM24) sem haldið var á Hamranesvelli í Hafnarfirði helgina 20-21 júlí. Ásamt því tók hann Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni trissuboga ásamt liðsfélögum sínum sem settu einnig Íslandsmetið í félagsliðakeppni í undankeppni mótsins.

Ragnar Smári Jónasson úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi (BFB) var andstæðingur Þorsteins í gull úrslitaleiknum í trissuboga (óháð kyni). Þorsteinn var undir allan leikinn og Ragnar bætti forskot sitt í hverri umferð. En í síðustu umferð leiksins lifnaði Þorsteinn við og náði að snúa við 3 stiga forskoti Ragnars í eins stigs sigur 133-132 og tók því Íslandsmeistaratitilinn. Alfreð Birgisson úr Íþróttafélaginu Akri á Akureyri (ÍFA) tók brons úrslitaleikinn liðsfélaga sínum og dóttur Önnu Maríu Alfreðsdóttir.

Þorsteinn komst einnig í gull úrslitaleik trissuboga karla á ÍM24 þar sem hann mætti Alfreð Birgisson úr ÍFA. Þorsteinn byrjaði yfir í fyrstu tveim umferðum leiksins en Alfreð snéri leiknum svo við í þriðju umferð og náði sigrinum 138-134 og Þorsteinn tók því silfrið. Ragnar Smári Jónasson úr BFB tók brons úrslitaleikinn gegn Kaewmungkorn Yuangthong úr BFHH.

Í gull úrslitum félagsliða trissuboga mætti Þorsteinn ásamt liðsfélögum sínum í BFHH Erlu Marý Sigurpálsdóttir og Kaewmungkorn Yuangthong liði Bogans úr Kópavogi BFB. BFHH byrjaði yfir og BFB jafnaði í annarri umferð, Boginn tók svo 3 stiga forystu í þriðju umferð. Í síðustu umferð náðu Þorsteinn og liðsfélagar að snúa leiknum við í 9 stiga sigur 199-190 og tóku því Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni.

Þetta er eftir því sem best er vitað fyrsti einstaklings Íslandsmeistaratitill Þorsteins í meistaraflokki utandyra

Mögulegt er að finna frekari upplýsingar um mótið í frétt Bogfimisambands Íslands hér:

Góður árangur og gott veður á ÍM24 utandyra