Þórdís Unnur næstum Evrópubikarmeistari með 2 silfur og 1 brons á Evrópubikarmóti í Búlgaríu

Þórdís Unnur Bjarkadóttir sýndi bestu frammistöðu sem Íslendingur hefur náð á Evrópubikarmóti til dags. Hún stóð sig ótrúlega í trissuboga einstaklingskeppni U18 kvenna á Evrópubikarmóti ungmenna í Búlgaríu þar sem hún keppti um gullið og vann silfur í liðakeppni og brons í blandaðri liðakeppni. Hún sló einnig Íslandsmet í trissuboga U18 útsláttarkeppni og sló þrjú landsliðsmet.

Þórdís tók því með fyrstu einstaklingsverðlaun Íslands á mótum Evrópusambandsins eða heimssambandsins í sögu íþróttarinnar og fyrstu verðlaun sem Ísland hefur unnið í blandaðri liðakeppni. Hún vann til verðlauna í öllu sem hún keppti.

Gaman er að geta þess að Ísland hefur aðeins unnið til tveggja verðlauna á Evrópubikarmótum í sögu íþróttarinnar, árið 2023 silfur og árið 2024 brons í báðum tilfellum í trissuboga U21 kvenna og Þórdís var í báðum tilfellum í þeim liðum. Og nú er hún með 3 verðlaun á sama móti til viðbótar við gott gengi Íslenska liðsins almennt

Þórdís var í trissuboga U18 kvenna í 6 sæti í undankeppni Evrópubikarmótsins með skorið 649 (þrátt fyrir eitt miss, þar sem gikkurinn hljóp af óvart). Hún komst því áfram í útsláttarkeppni mótsins.

Í 16 manna úrslitum einstaklinga mætti hún liðsfélaga sínum Elísabet Fjólu Björnsdóttir (alltaf óheppilegt þegar að Íslendingur lendir á móti Íslendingi þar sem aðeins sá sem vinnur útsláttinn heldur áfram). Þar vann Þórdís örugglega 139-112 og hélt því í 8 manna úrslit.

Í 8 manna úrslitum einstaklinga mætti hún sigurstranglegri stelpu sem var í 3 sæti undankeppni mótsins Aleksandra Gladkova frá AIN (International Neutral Athlete, líklega Rússnesk). Þórdís var underdog í leiknum en byrjaði sterk með 2 stiga forskot og hélt forskotinu allann leikinn og endaði með því að taka sigurinn 142-141. Þórdís hélt því í undanúrslit (4 manna úrslit).

Í undanúrslitum einstaklinga mættust Þórdís og Leoni Dana Drofner frá Þýskalandi sem var í öðru sæti undankeppni mótsins. Þórdís var nokkuð viss um að hún myndi tapa leiknum og enda á því að keppa um bronsið á Evrópubikarmótinu, þar sem að sú Þýska er mjög sterk. En viti menn Þórdís átti frábærann leik, byrjaði leikinn 1 stigi yfir og jók forystuna í hverri einustu umferð og endaði á því að taka sigurinn mjög örugglega með 8 stiga mun 141-133. Þórdís var því komin í gull úrslitaleik einstaklinga á Evrópubikarmótinu og gæti ekki verið glaðari.

Í gull úrslitaleiknum mættust Þórdís og Veronica Pavin frá Ítalíu, sem var efst í undankeppni mótsins. Leikurinn byrjaði mjög jafn og aðeins 1 stigs munur á þeim eftir fyrstu umferðina. Þær jöfnuðu umferð 2, en í þriðju umferð átti Þórdís lélega umferð á móti fullkominni frá þeirri Ítölsku sem leiddi leikinn nú með 7 stiga mun. Í fjórðu umferð náði sú Ítalska að auka forskotið sitt í 8 stig. Þórdís náði í síðustu umferðinni að skera á forskotið og minnka muninn niður í 5 stig, en það var ekki nóg og sú Ítalska tók því sigurinn. Þórdís vann því silfur, sem eru fyrstu einstaklings verðlaun Íslands á Evrópubikarmóti í sögu íþróttarinnar.

Fyrir mótið var Þórdís 100% á því að hún kæmist í 8 manna úrslit mótsins og var að vonast til þess að vinna 8 manna úrslitaleikinn og komast í topp 4 og keppa í brons úrslitaleiknum. Þannig að hún skaut langt yfir sínum hæstu væntingum á mótinu og þó að það sé súrt að tapa úrslitaleiknum þegar maður er kominn í hann þá stóð hún sig ótrúlega vel á mótinu.

Þórdís og liðsfélagar hennar á Evrópubikarmótinu, Elísabet Fjóla Björnsdóttir og Sóldís Inga Gunnarsdóttir, léku við Ítalska liðið í gull úrslitaleik trissuboga U18 kvenna liða. Veðrið í leiknum var frekar ömurlegt, mikil rigning, vindur og frekar kalt, allir keppendur úr öllum löndum voru að ströggla í liðakeppni að ná að halda frammistöðunni upp.

Leikurinn við Ítalíu var mjög jafn, í annarri lotu gerði einn liðsmaðurinn mistök og skaut ör á vitlausa skotskífu, sem orsakaði það að Íslands tapaði hæstu ör í þeirri lotu (10 stigum). Ef það hefði ekki gerst þá hefðu liðin verið jöfn í 3 lotu leiksins. En okkar stelpur áttu svo eitt úps skot og skutu framhjá skotmarkinu í síðustu lotunni. Ef þessar tvær örvar hefðu verið gildar/góðar þá hefði lítill munur verið milli liðina í skori. En Ítalska liðið hafði betur 203 á móti 181 á móti Íslandi og Ísland tók því silfrið á Evrópubikarmótinu. Í fyrsta sinn í trissuboga U18 kvenna í sögu íþróttarinnar.

Þórdís var efst Íslensku stelpnana í undankeppni mótsins og keppti því líka í blandaðri liðakeppni (mixed team, hæsti kk og hæsti kvk frá hverri þjóð). Þórdís og Magnús Darri Markússon, liðsfélagi hennar, léku við Portúgalska liðið í brons úrslitaleik trissuboga U18 blandaðra liða.

Leikurinn var mjög spennandi. Ísland byrjaði 2 stigum undir eftir fyrstu lotuna og Portúgalir náðu að auka forskotið í 4 stig eftir lotu 2. Í þriðju lotu náðu Íslendingarnir að saxa forskot Portúgala niður í 1 stig og útlit fyrir að fjórða og síðasta lota yrði mjög spennandi og jöfn. En í síðustu lotu brons úrslitaleiksins náði Íslenska liðið frábærri loka lotu 37 á móti 33 og snéru leiknum við úr því að vera einu stigi undir yfir í að vera 3 stigum yfir, og með því tryggja sér öruggann sigur 138-135. Ísland tók því bronsið á Evrópubikarmótinu og þau slógu 6 ára gamalt Íslandsmet í leiðinni í útsláttarleik blandaðra liða, metið var áður 137 stig. Ítalía tók svo gullið og Þýskaland silfrið í flokknum.

Samantekt loka árangurs Þórdísar á Evrópubikarmóti ungmenna í Búlgaríu:

  • Þórdís Unnur Bjarkadóttir – Silfur – Trissuboga U18 kvenna – Tap í gull úrslitaleiknum gegn Ítalskri stelpu 139-134
  • Compound U18 women team – Silfur – Tap í gull úrslitaleiknum gegn Ítalíu 203 vs 181
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Elísabet Fjóla Björnsdóttir
    • Sóldís Inga Gunnarsdóttir
  • Compound U18 mixed team – Brons  – Sigur gegn Portúgal í brons úrslitaleiknum 138-135
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Magnús Darri Markússon
  • Íslandsmet trissuboga U18 kvenna 142 – Þórdís Unnur Bjarkadóttir (metið var áður 140)
  • Landsliðsmet í trissuboga U18 mixed team útsláttarkeppni – 138 stig (metið var 137 stig frá árinu 2019)
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Magnús Darri Markússon
  • Landsliðsmet í trissuboga U18 kvenna lið undankeppni – 1670 stig
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Sóldís Inga Gunnarsdóttir
    • Elísabet Fjóla Björnsdóttir
  • Landsliðsmet í trissuboga U18 kvenna lið útsláttarleik –  181 stig
    • Þórdís Unnur Bjarkadóttir
    • Sóldís Inga Gunnarsdóttir
    • Elísabet Fjóla Björnsdóttir

Nánari upplýsingar um Evrópubikarmótið og gengi Íslands almennt á því verður hægt að finna í frétt Bogfimisambands Íslands á bogfimi.is eftir að úrslitaleikjunum lýkur. En tveir Íslendingar til viðbótar eiga eftir að keppa um gull í sögulegum niðurstöðum Íslands á Evrópubikarmótinu. Mögulegt er að horfa á alla úrslitaleikina á Youtube rás Evrópusambandsins https://www.youtube.com/@worldarcheryeurope/streams En áætlað er að leyfi fáist fyrir að birta þá líka á Archery TV Iceland Youtube rásinni hér https://www.youtube.com/c/ArcheryTVIceland