Þórdís með silfur á Archery GB Youth Festival og jafnaði Íslandsmet

Þórdís Unnur Bjarkadóttir úr BF Boganum í Kópavogi vann silfur á Archery GB Youth Festival í Bretlandi 5-8 ágúst síðast liðinni.

Þórdísi gekk ágætlega í undankeppni mótsins og endaði í 5 sæti með 638 stig, langt frá hennar besta skori en innan eðlilegra marka í undankeppni og fínt skor miðað við að mikill vindur var í undankeppni mótsins.

Í útsláttarkeppni einstaklinga sat Þórdís hjá í 16 manna úrslitum og mætti svo Katie Jennings í 8 manna úrslitum. Þar byrjaði Þórdís á lakri umferð 25-29 og gaf þeirri Bresku 4 stiga forskot eftir fyrstu umferð. Þórdís náði að vinna upp 2 stig í annarri umferð 29-27 og annað stig í þriðju umferð 28-27. Stelpurnar jöfnuðu fjórðu lotu 28-28 og Katie því einu stigi yfir fyrir síðustu umferðina. Í síðustu umferðinni skoraði Katie 28 stig, sem þýddi að Þórdís þyrfti að skora 29 stig til að jafna eða fullkomið 30 stig til að vinna, Þórdís tók 29 stig og jafnaði leikinn 139-139 og knúði fram bráðabana. Þar náði Þórdís sigrinum með 10 á móti 9 frá Katie og Þórdís hélt því áfram í undanúrslit mótsins.

Í undanúrslitum mættust Þórdís og Hallie Boulton sem vann m.a. brons á síðasta HM ungmenna 2023. Leikurinn var mjög spennandi. Hallie byrjaði yfir 29-27 í fyrstu umferð og tók 2 stiga forskot. Báðar stelpurnar skoruðu svo fullkomna umferð 30-30, Hallie náði svo að auka forskot sitt um 1 stig í þriðju lotu 28-27 og leit ekki vel út fyrir Þórdísi 3 stigum á eftir brons verðlaunahafa síðasta HM og aðeins 2 umferðir eftir. Í fjórðu umferð náði Þórdís þó að minnka muninn í 1 stig eftir 28-26 skor og í síðustu lotunni skoraði Hallie 28 stig, sem þýddi að Þórdís þurfti 29 stig til að jafna eða fullkomið skor til að sigra og halda áfram í gull úrslitaleikinn. Þar kom 10-10-10 30 perfect skor hjá Þórdísi sem gaf henni sigurinn 142-141 og jafnaði Íslandsmetið í trissuboga U18 kvenna útsláttarleik. Þórdís hélt því í gull úrslitaleikinn.

Í gull úrslitum mættust Þórdís og Patience Wood. Þolinmóður Viður (hehe) tók tveggja stiga forskot í fyrstu umferð 28-26 og jók það svo í 4 stiga forskot í eftir 27-25 umferð 2. Okkar stelpa mikið fyrir að leyfa andstæðingunum að ná yfirhöndinni og ná þeim svo aftur á þessu móti virðist vera. Í þriðju umferð tók Þórdís 3 stig til baka 28-25 og Patience náði einu stigi í umferð 4 29-28. Patience leiddi því leikinn með 2 stigum og ein umferð eftir. Þar jöfnuðu stelpurnar loka umferðina 26-26, leikurinn endaði 135-133 og Patience tók því sigurinn á móti Þórdísi sem tók silfrið. Hallie Boulton tók bronsið gegn Lily Wright.

Gaman er að geta þess að allar stelpurnar sem Þórdís var að keppa við erum í landsliðum Bretlands og búnar að ná góðum árangri alþjóðlega. Einn af landsliðsþjálfurum Bretlands var í þjálfaraboxinu hjá Patience í gull úrslitunum á meðan kærasti Þórdísar Max (sem er Breskur) var Þórdísi innan handar í úrslitunum. Veðrið var mjög “Íslenskt” og þokkalegur vindur í úrslitunum, ekkert sem Þórdís er ekki þegar vön. Mögulegt er að sjá úrslitaleikinn í heild sinn á Youtube rás Breska bogfimisambandsins hér:

 

Þetta eru því mjög flott frammistaða hjá Þórdísi og vafalaust að hún kæmist auðveldalega í Breska landsliðið.

Þórdís fékk einnig að taka þátt í liðakeppni á mótinu, þar sem Þórdís fyllti í lið Scooter. Veðrið var ekki að skemmtilegasta bæði vindur og mikil rigning (í anda Íslensks veðurs hehe). Þar tók Þórdís silfur með liðinu en hún er mjög sátt með frammistöðu sína. Hitt liðið var samansett af þrem stelpum sem eru allar í landsliði Breta. Mögulegt er að sjá gull úrslitaleikinn hér:

Archery GB Youth Festival er árlegur viðburður sem Breska Bogfimisambandið heldur þar sem bestu Bresku ungmenni keppa. Mótið er haldið í anda alþjóðlegra stórmóta ungmenna s.s. European Youth Championships og European Youth Cups og markið þess er að byggja upp reynslu innlendra keppenda á keppni í slíkum stóramótum. Mótið er þó ekki lokað fyrir þátttöku erlendra keppenda þó að aðeins 2 af 147 keppendum mótsins hafi komið utan Bretlands.

Flott frammistaða hjá Þórdísi sem flaug beint heim af mótinu til að taka þátt á Íslandsmóti ungmenna þar sem hún hélt sigurgöngu sinni áfram (en nánar um það í annarri frétt síðar). Þórdís mun einnig keppa fyrir Ísland á HM ungmenna í Kanada í næstu viku, þannig að mikið að gera hjá Þórdísi þessa dagana.