Margrét Lilja Guðmundsdóttir með tvo Íslandsmeistaratitla og tvö Íslandsmet á ÍM

Margrét Lilja Guðmundsdóttir vann sinn fyrsta og hinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki kvenna langboga/hefðbundnum bogum á Íslandsmeistaramótinu á sunnudaginn síðastliðinn.

Margrét sló einnig Íslandsmetið í langboga kvenna, vann Íslandsmeistaratitil félagsliða og sló Íslandsmetið í félagsliðakeppni með liðsfélögum sínum í Langbogafélaginu Freyju á ÍM. Þar sem að gull úrslit kvenna var fyrst úrslitaleikur dagsins þá er hún fyrsti Íslandsmeistari í flokknum sem titlaður er af BFSÍ.

Tveir titlar og tvö Íslandsmet, góð uppskera.

Keppni um einstaklings Íslandsmeistaratitil kvenna:

Margrét var efst í undankeppni ÍM og sat því hjá í 8 manna úrslitum.

Í undanúrslitum mættust Margrét og Guðrún Þórðardóttir einnig úr Langbogafélaginu Freyju. Þar byrjaði Margrét á fullkomnu skori í fyrstu lotu 10-10-10 og engir sénsar gefnir og tók öruggann sigur 6-0. Margrét hélt því áfram í gull úrslitin.

Í gull úrslitaleiknum mættust Margrét og Tinna Guðbjartsdóttir einnig úr Langbogafélaginu Freyju. Úrslitaleikurinn var mjög spennandi og réðst ekki fyrr en í síðustu lotunni. Tinna tók fyrstu lotuna 23-22 og leiddi leikinn því 2-0. Magga tók næstu lotu 27-18 og staðan jöfn 2-2. Magga tók þriðju lotuna 23-22, 4-2 og Tinna tók fjórðu 24-22 og staðan nú jöfn 4-4 og aðeins ein lota eftir af úrslitaleiknum. Síðasta lotan fór 24-20 fyrir Margréti og hún tók því sigurinn og fyrsta formlega Íslandsmeistaratitil kvenna í langboga/hefðbundnum bogum.

Keppni um einstaklings Íslandsmeistaratitilinn (óháð kyni):

Í keppni um Íslandsmeistaratitilinn (óháð kyni) var Margrét í 4 sæti í undankeppni. Margrét  vann leikinn sinn í 16 manna úrslitum örugglega 6-0 gegn Akureyringnum Óliver Þór Wendell.

Í 8 manna úrslitum mætti Margrét Ragnari Smára Jónssyni úr BF Boganum Kópavogi. Leikurinn var mjög jafn. Ragnar tók fyrstu lotuna 26-25, Margrét aðra 25-24 og þriðju 26-19. Ragnar tók fjórðu lotuna 25-21 og staðan því jöfn 4-4 og ein lota eftir. En þar náði Ragnar óvæntum sigri í lotunni 27-26 og því einnig í leiknum 6-4. Margrét endaði því í 5 sæti í keppni um titilinn óháð kyni á ÍM.

Keppni um Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni: 

Í félagsliðakeppni var Margrét ásamt liðfélögum sínum í LF Freyju Hauk og Guðmundi í fyrsta sæti í undankeppni ÍM og settu Íslandsmetið í félagsliðakeppni með skorið 1462. Þau kepptu gegn BF Boganum í Kópavogi í gífurlega jöfnum og spennandi gull úrslitaleik Íslandsmeistaramótsins.

BF Boginn tók fyrstu lotu úrslitaleiksins 44-43 og leiddu leikinn 2-0. BF Boginn tók aðra lotuna líka 45-41 og leiddu nú leikinn 4-0 í hálfleik og LF Freyja í þröngri stöðu, þar sem aðeins eru 8 stig í pottinum og eina leið þeirra til sigurs væri að vinna síðustu tvær loturnar til að jafna leikinn og knýja fram bráðabana. Freyjumenn náðu því og skoruðu tvö hæstu skor leiksins í síðustu tveim lotunum 48-41 í lotu 3 og staðan 4-2 og 51-45 í lotu 4 og jöfnuðu leikinn 4-4.

Þar sem leikurinn endaði í jafntefli þá þurfti bráðabana til þess að ákvarða sigurvegarann og Íslandsmeistarann. Bráðabaninn endaði 28-24 fyrir LF Freyju sem tók því sigurinn. Margrét tók því Íslandsmeistaratitilinn í félagsliðakeppni ásamt liðsfélögum sínum, sem er einnig fyrsti Íslandsmeistaratitill í félagsliðakeppni í greininni.

Samantekt af árangri Margrétar á ÍM langboga meistaraflokki:

  • Íslandsmeistari – Langbogi kvenna – Margrét Lilja Guðmundsdóttir – LFF Reykjavík
  • 5 sæti – Langbogi (óháð kyni) – Margrét Lilja Guðmundsdóttir – LFF Reykjavík
  • Íslandsmeistari – Langboga félagsliðakeppni – LF Freyja Reykjavík
    • Margrét Lilja Guðmundsdóttir
    • Haukur Hallsteinsson
    • Guðmundur Ingi Pétursson

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitlar eru veittir í langboga/hefðbundnum bogum (almennt kallað langbogaflokkur á Íslandi), en flokknum var bætt við formlega við regluverk BFSÍ síðasta haust. Það hefur þó verið keppni í langboga og öðrum hefðbundnum bogum (t.d. hestabogum) um langt skeið á Íslandi og erlendis. Á fyrstu Ólympíuleikum voru allir keppendur meira og minna með langboga, en margt hefur þróast síðan þá, en ekki í hjörtum allra sem vilja halda í hefðina 😉 Bogfimi var einnig ein fyrsta íþrótt sem leyfði þátttöku kvenna á Ólympíuleikum fyrir um 120 árum.

ÍM í berboga og langboga var haldið í Bogfimisetrinu sunnudaginn 13 apríl 2025.

Keppt er um fjóra Íslandsmeistaratitla í hverri íþróttagrein (bogaflokki)

  • Einstaklings karla
  • Einstaklings kvenna
  • Einstaklings (óháð kyni)
  • Félagsliða (óháð kyni)

Mögulegt er að finna frekari upplýsingar hér:

ÍM í berboga/langboga, fyrstu titlar veittir í langboga/hefðbundnum bogum og 75% titla í berboga skiptu um hendur