Langbogafélagið Freyja Íslandsmeistarar félagsliða og settu Íslandsmet félagsliða

Langbogafélagið Freyja vann Íslandsmeistaratitilinn í langboga meistaraflokki félagsliða á ÍM innandyra 2025 um helgina í Bogfimisetrinu.

Meistaraflokks lið LF Freyju stóð saman af:

  • Margrét Lilja Guðmundsdóttir
  • Haukur Hallsteinsson
  • Guðmundur Ingi Pétursson

Reykvíkingar voru efstir í undankeppni félagsliða á Íslandsmeistarmótinu og settu Íslandsmetið í félagsliðakeppni með skorið 1462.

Reykvíkingar (LF Freyja) mættu Kópavogsbúum (BF Boginn) í gífurlega jöfnum og spennandi gull úrslitaleik Íslandsmeistaramótsins.

(2 stig fyrir að vinna lotu, 1 stig fyrir að jafna liðið sem er fyrr að ná 5 stigum vinnur leikinn, ef leikurinn endar í jafntefli 4-4 er bráðabani sem ræður úrslitum)

BF Boginn tók fyrstu lotu úrslitaleiksins 44-43 og leiddu leikinn 2-0. BF Boginn tók aðra lotuna líka 45-41 og leiddu nú leikinn 4-0 í hálfleik og Langbogafélagið Freyja í þröngri stöðu, þar sem aðeins eru 8 stig í pottinum og eina leið þeirra til sigurs væri að vinna síðustu tvær loturnar til að jafna leikinn og knýja fram bráðabana um sigurinn. Freyjumenn smelltu í háagírinn og skoruðu tvö hæstu skor leiksins í síðustu tveim lotunum 48-41 í lotu 3 og staðan 4-2 og 51-45 í lotu 4 og jöfnuðu leikinn 4-4.

Þar sem leikurinn endaði í jafntefli þá þurfti bráðabana til þess að ákvarða sigurvegarann og Íslandsmeistarann. Bráðabani virkar þannig að hver liðsmaður skýtur einni ör og liðið sem er með hærra skorið vinnur leikinn, ef liðin enda jöfn í skori þá vinnur liðið sem hitti ör næst miðju.

Reykvíkingar (Freyja) gáfu lítið færi á sér og hittu ekki út fyrir gula og rústuðu bráðabananum 28-24. Langbogafélagið Freyja tóku því Íslandsmeistaratitil félagsliða 2025. Sem er frábær árangur fyrir endurvakið félag og fyrsti Íslandsmeistaratitill sem veittur er félagsliðakeppni

Samantekt af árangri félagsliðs LF Freyju á ÍM langboga meistaraflokki:

  • Íslandsmeistari – Langboga félagsliðakeppni – LF Freyja Reykjavík
    • Margrét Lilja Guðmundsdóttir
    • Haukur Hallsteinsson
    • Guðmundur Ingi Pétursson
  • Íslandsmet – LF Freyja – Langboga félagsliðakeppni meistaraflokkur – 1462 stig
    • Margrét Lilja Guðmundsdóttir
    • Haukur Hallsteinsson
    • Guðmundur Ingi Pétursson

Árangur Langbogafélagsins í einstaklingskeppni á ÍM í langboga meistaraflokki 2025:

  • Íslandsmeistari – Langboga kvenna – Margrét Lilja Guðmundsdóttir
  • Silfur – Langbogi kvenna – Tinna Guðbjartsdóttir
  • Brons – Langbogi kvenna – Guðrún Þórðardóttir
  • Silfur – Langbogi (óháð kyni) – Haukur Hallsteinsson
  • Brons – Langbogi (óháð kyni) – Daníel Örn Linduson Arnarsson
  • Silfur – Langbogi karla – Haukur Hallsteinsson
  • Brons – Langbogi karla – Daníel Örn Linduson Arnarsson
  • Íslandsmet – Margrét Lilja Guðmundsdóttir – LF Freyja – Langboga kvenna meistaraflokkur – 474 stig (metið var áður 454 stig)

LF Freyja unnu einnig til flestra verðlauna af öllum félögum á ÍM (í einstaklings og liðakeppni samtals)

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitlar eru veittir í langboga/hefðbundnum bogum (almennt kallað langbogaflokkur), en flokknum var bætt við formlega við regluverk BFSÍ síðasta haust. Það hefur þó verið keppni í langboga og öðrum hefðbundnum bogum (t.d. hestabogum) um langt skeið á Íslandi og erlendis. Á fyrstu Ólympíuleikum voru allir keppendur meira og minna með langboga, en margt hefur þróast síðan þá, en ekki í hjörtum allra. Bogfimi var einnig ein fyrsta íþrótt sem leyfði þátttöku kvenna á Ólympíuleikum.

ÍM í berboga og langboga var haldið í Bogfimisetrinu sunnudaginn 13 apríl 2025.

Keppt er um fjóra Íslandsmeistaratitla í hverri íþróttagrein (bogaflokki)

  • Einstaklings karla
  • Einstaklings kvenna
  • Einstaklings (óháð kyni)
  • Félagsliða (óháð kyni)

Mögulegt er að finna frekari upplýsingar hér:

ÍM í berboga/langboga, fyrstu titlar veittir í langboga/hefðbundnum bogum og 75% titla í berboga skiptu um hendur