Jenný Magnúsdóttir þrefaldur Íslandsmeistari með Íslandsmet og næst hæst í undankeppni NM ungmenna

Jenný Magnúsdóttir í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi keppti á ÍM ungmenna utandyra í Hafnarfirði 28 júni og NM ungmenna utandyra (NUM) í Óðinsvé Danmörku 3-7 júlí með mjög góðu gengi.

Jenný stóð sig frábærlega á ÍM ungmenna þar sem hún vann alla þrjá Íslandsmeistaratitlana í hennar flokki sem voru í boði og setti Íslandsmet í félagsliðakeppni.

Á NM ungmenna seinna i vikunni í Danmörku var Jenný lengi vel efst í undankeppni einstaklinga á NM en endaði í 2 sæti eftir undankeppni mótsins með mjög litlum mun. Jenný var ekki langt frá Íslandsmetinu í U16 kvenna með skorið 562 en metið er núverandi 573 og því var gott útlit fyrir að Jenný væri ein sigurstranglasta til einstaklingsverðlauna á NM ungmenna miðað við skor úr undankeppni.

Í útsláttarkeppni NM sat Jenný hjá í fyrsta útslætti (32 manna) og sigraði svo á móti Jennifer Isabella Johnson frá Danmörku í 16 manna úrslitum 6-4. Í 8 manna úrslitum var Jenný þó óheppin og var slegin út 6-0 af Filippa Eriksson frá Svíþjóð.

Í liðakeppni vann Jenný ásamt liðsfélögum sínum í Íslenska liðinu 6-2 sigur á Noregs liði 2 í 16 liða úrslitum, en voru svo slegin út af aðal liði Danmerkur 6-0 í 8 liða úrslitum. Jenný ásamt liðsfélögum (Þórir og Elías) enduðu því í 6 sæti í liðakeppni.

Jenný hefur verið að gæla við það að stefna á Ólympíuleika ungmenna 2026 og miðað við að hún var meðal topp 3 í skori á NM ungmenna í U16 flokki þá er það markmið sem hún gæti alveg náð með meiri æfingum.

Niðurstöður á NM ungmenna:

  • 6 sæti sveigboga U16 liðakeppni
  • 7 sæti sveigboga kvenna U16 einstaklingskeppni

Niðurstöður á ÍM ungmenna:

  • Íslandsmeistari – Sveigbogi kvenna U16 einstaklinga
  • Íslandsmeistari – Sveigbogi U16 einstaklinga (óháð kyni)
  • Íslandsmeistari – Sveigbogi U16 félagsliðakeppni

Íslandsmet slegin:

  • Sveigboga U16 félagslið undankeppni – 937 stig (nýtt met)
    • Elías Áki Hjaltason BFB
    • Jenný Magnúsdóttir BFB

Frekari upplýsingar um mótin er hægt að finna í fréttum Bogfimisambands Ísland hér:

Frábært gengi Íslands á NM ungmenna í bogfimi um helgina með 5 Norðurlandameistara, 5 Norðurlandamet o.fl.

Kópavogur og Hafnarfjörður sýndu yfirburði á ÍMU í bogfimi utandyra og tóku 27 titla og 7 Íslandsmet