Íþróttamaður ársins 2021 í bogfimi er Oliver Ormar Ingarsson

Oliver Ormar Ingvarsson 20 ára í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi er íþróttamaður ársins í fyrsta sinn hjá Bogfimisambandi Íslands.

Á þátttökumestu mótaröð í heiminum WorldArchery Indoor World Series stóð Oliver sig vel og endaði meðal efstu 25% keppenda í Janúar og meðal efstu 20% keppenda í Febrúar. Fleiri en 5000 voru skráðir í sveigboga karla í mótaröðinni.

Oliver var í 5 sæti á Norðurlandameistaramóti ungmenna þrátt fyrir búnaðarbilun þar sem boginn hans sprakk í sundur í keppninni. 2021 keppti Oliver m.a. á HM ungmenna í Póllandi, Heimsbikarmóti og Final Qualification Tournament (FQT) í París fyrir Ólympíuleikana í Tokyo, þar sem hann komst í lokakeppni í öllum verkefnunum en var sleginn út snemma.

Síðustu 2 ár hefur Oliver átt hæstu skor ársins í undankeppni innandyra og utandyra í opnum flokki (fullorðinna) og U21 í Ólympískum sveigboga á Íslandi. En heppnin hefur ekki alltaf fylgt honum í lokakeppni (útsláttarkeppni) móta. Í gull úrslitum um Íslandsmeistaratitlinum utandyra (fullorðina) tapaði Oliver í tvöföldum bráðabana. Bráðabanar eru algengir í bogfimi en að það þurfi bráðabana til þess að skera úr um úrslit bráðabana er eitt af því sjaldgæfasta sem gerist í íþróttinni.


Oliver og Marín á lokakeppnismóti um þátttökurétt á Ólympíuleika í Tókýó ásamt Mete Gazoz frá Tyrklandi sem vann síðar Gull á Ólympíuleikum í Tókýó.

Oliver sló Íslandsmetin í U21 flokki fjórum sinnum á árinu og sló mixed team landsliðsmet fullorðina og U21 ásamt Marín Anítu Hilmarsdóttir í París.

2022 er Oliver áætlaður í keppni á:

  • Evrópumeistaramót innandyra í febrúar í Slóveníu
  • Evrópumeistaramót utandyra í júní í Þýskalandi (er einnig undankeppni um þátttökurétt á Evrópuleika)
  • Heimsbikarmót í júní í París

Oliver er meðal annars að miða á að vinna þátttökurétt á Evrópuleika 2023 og Ólympíuleika 2024.

Íþróttafólk ársins er valið miðað við tölfræðilegan útreikning á frammistöðu íþróttafólks á mótum og er því eins hlutlaust val ferli og mögulegt er. Tölfræðin fyrir árið 2021 var minni en venjulega vegna Covid-19 en nægilega mikil til þess að ekki þurfti að virkja ákvæði um “Ófyrirséð atvik” eins og gert var árið 2020 þegar öllum alþjóðlegum mótum var aflýst og erfitt var að halda innlend mót.

Tímabilið samkvæmt reglugerð til þess að ná afrekum var 1 október 2020 til 30 september 2021. Undir venjulegum kringumstæðum væru engin mót í október til desember sem gætu haft áhrif á tölfræði íþróttafólks ársins, en niðurstaða úr Íslandsmeistaramóti innanhúss 2021 kemur inn í lok nóvember og mun því falla inn í tölfræði næsta tímabils.

Vert er að nefna að síðustu 4 ár hafa 7 af 8 af þeim sem hlotið hafa titilinn “íþróttafólk ársins” verið undir 21 árs en meðalaldur íþróttafólks ársins 2017 og fyrr var um fertugt. Mikil kynslóða skipti eru í gang í íþróttinni og hæfileikamótun sem hófst 2016/17 er farin að skila góðum árangri.