Svarið við þessari spurningu er erfitt þar sem það fer eftir því hvað maður skilgreinir sem að vera góður í bogfimi.
Bogfimi er gífurlega fjölbreytt íþrótt og innifelur margar keppnisgreinar (s.s. mark, víðavangs, skíða, hlaupa, 3D bogfimi) og bogaflokka (s.s. sveigbogi, trissubogi, berbogi, langbogi). Getustigið í mismunandi íþróttagreinunum og bogaflokkunum er mismunandi líka og því er mögulegt að komast fljótt á hæsta stig íþróttarinnar á landsvísu í sumum greinum og bogaflokkum en ekki öðrum.
Til þess að gefa eitthvað viðmið fyrir þá sem eru eins og ég og vilja fá að heyra eitthvað skor 😉: árangursverðlaun heimssambandsins byrja á 500 stigum í markbogfimi innandyra og því er það gott viðmið fyrir hvað telst að vera góður í bogfimi. Aðeins þeir sem ná því skori á heims- og Evrópumetahæfu móti mega kaupa þau verðlaun. Sjá nánar um árangursverðlaun WA hér: https://bogfimi.is/worldarchery-arangursverdlaun/
Almennt tekur langann tíma að verða góður á hæsta stigi í bogfimi og meðal tíminn sem einstaklingar hafa stundað kröftugar æfingar íþróttina þegar þeir komast inn á Ólympíuleika eða sambærilega viðburði er um 7 ár.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá einhver viðmið en æfingaskipulög eru jafn mismunandi og fólkið sem æfir og keppir í bogfimi.
Atvinnumaður/afreksfólk á hæsta stigi.
Æfingaskipulag atvinnumanna/afreksfólks á hæsta stigi (t.d. þá sem eru að miða á Ólympíuleika) er almennt um 2-3 æfingar á dag 5-6 daga í viku. Fyrir þá sem eru í skóla/vinnu er það almennt æfing að morgni fyrir skóla/vinnu 1-2 tímar, æfing um miðjan dag t.d. í hádegishléi eða strax eftir vinnu 1-2 tímar og að kvöldi 1-3 tímar. Með þessu móti hefur líkaminn tíma til þess að jafna sig á milli æfinga og verið er að hámarka nýtingu á tíma. Einnig er 1 dagur í viku almennt tekinn frá þar sem líkaminn fær að jafna sig alveg. Atvinnumenn æfa oftast um 4-8 tíma á dag, æfingaskipulag daga getur verið mismunandi eftir skipulagi hvers og eins íþróttamanns. Almennt er alltaf gert ráð fyrir a.m.k. 8 tíma í svefn.
Keppendur/Afreksfólk
Æfingaskipulag afreksfólks er mjög mismunandi en gott viðmið er um 1-2 æfingar á dag, 3 daga í viku og um 2-3 tímar í senn. Oftast er æfingaskipulag afreksfólks eftir vinnu eða skóla.
Áhugamenn
Æfingaskipulag áhugamanna er mjög mismunandi enda er tilgangur þeirra æfinga að miklu leiti dægradvöl, heilsubæting eða skemmtun. Viðmið fyrir áhugamenn er almennt um 1-2 í viku 1-3 tímar í senn.