Helgi Már Íslandsbikarmeistari en þurfti Íslandsmet til að sigra og náði því

Helgi Már Hafþórsson varð Íslandsbikarmeistari í berboga í fyrsta sinn á ferlinum á lokamóti Íslandsbikarmótaraðar BFSÍ 2025 sem var haldið laugardaginn 19 júlí síðastliðinn í Þorlákshöfn.

Helgi var í öðru sæti fyrir lokamót mótaraðarinnar í Þorlákshöfn í júlí. Helgi var með 1086 stig, 19 stigum á eftir þeim sem var í fyrsta sæti.

Þannig að það var nokkuð ljóst að eina leiðin fyrir Helga til þess að vinna Íslandsbikarmótaröðina 2025 var í raun að slá Íslandsmetið í berboga á lokamótinu. Íslandsmetið var 562 stig og Helgi þyrfti að skora að lágmarki 561 stig til að vinna bikarmótaröðina og verða Íslandsbikarmeistari.

Á lokamótinu á laugardaginn tortímdi Helgi Íslandsmetinu með 585 stig, 23 stigum hærra en fyrra Íslandsmetið! Veður aðstæður voru fullkomnar á lokamótinu til þess að mögulegt væri að slá met, en aðeins 2 einstaklingsmet féllu í meistaraflokki og eitt af þeim var met Helga.

Helgi tók því sigurinn í Íslandsbikarmótaröðinni 2025 með 1130 stig heildarstig, á móti keppandanum í öðru sæti sem var með 1105 stig, með glæsilegum viðsnúningi á lokamótinu og nýju Íslandsmeti.

Topp 3 í Íslandsbikarmótaröð BFSÍ 2025 Berbogi:

  1. Helgi Már Hafþórsson ÍFA 1130 stig
  2. Izaar Arnar Þorsteinsson ÍFA 1105 stig
  3. Jonas Björk ÍFA 916 stig

Bikarmótaröð BFSÍ samanstóð af þremur Íslandsbikarmótum 2025:

  • Íslandsbikarmót Sauðárkrókur Maí
  • Íslandsbikarmót Þorlákshöfn Júní
  • Íslandsbikarmót Þorlákshöfn Júlí

Þeir keppendur sem eru með tvö hæstu skor samanlagt úr undankeppni Íslandsbikarmóta tímabilsins hreppta titilinn Íslandsbikarmeistari 2025 í sínum keppnisgreinum.

Bikarmótaröðin er keppni óháð kyni, þar mætast því karlar/konur/kynsegin í keppni um hver sýnir bestu frammistöðu að meðaltali yfir tímabilið.

Berbogi Bikarmeistari Innandyra
2025 Izaar Arnar Þorsteinsson – ÍF Akur – Akureyri
2024 Heba Róbertsdóttir – BF Boginn – Kópavogur
2023 Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur – Hafnarfjörður

Berbogi Bikarmeistari Utandyra
2025 Helgi Már Hafþórsson – ÍF Akur – Akureyri
2024 Guðbjörg Reynisdóttir – BF Hrói Höttur – Hafnarfjörður
2023 Heba Róbertsdóttir – BF Boginn – Kópavogur

Nánari upplýsingar í frétt Bogfimisambands Íslands hér:

Bikarmeistarar utandyra 2025 – Haukur – Helgi – Alfreð – Marín