Eowyn í 9 sæti á World Series

Eowyn Mamalias stóð sig vel á fyrsta móti heimsmótaraðar tímabils World Archery innandyra (Indoor World Series – IWS) í Ólympíuborginni Lausanne Sviss.

Eowyn var í 16 sæti í undankeppni mótsins með 556 stig og komst því áfram í 32 manna úrslit.

Eowyn mætti í fyrsta leik (32 manna úrslitum) Ayse Erdogan frá Tyrklandi sem var í 17 sæti í undankeppni. Leikurinn var mjög jafn. Eowyn byrjaði yfir 29-28 eftir fyrstu umferð en Ayse jafnaði leikinn í umferð 2. Jafnteflið hélst í umferð 3. En í umferð 4 náði Eowyn 2 stiga forystu í leiknum og hélt þeirri forystu í síðustu umferðinni, Eowyn tók því sigurinn fyrir Ísland 142-140.

Í 16 manna úrslitum mættust Eowyn og margfaldur Evrópumeistari Sarah Prieels frá Belgíu. Sarah byrjaði einu stigi yfir eftir fyrstu umferð og jók forskotið um annað stig í annarri umferð. Eowyn jafnaði svo leikinn 86-86 í þriðju umferð. Sarah náði svo 3 stiga forystu með fullkomið skor í fjórðu umferðinni og jók forskotið í 4 stig í síðustu umferðinni og tók því sigurinn 145-141 og hélt áfram í 8 manna úrslit og Eowyn endaði því í 9 sæti.

Shamai Yamrom kærasti Eowyn frá Ísrael var einnig að keppa á mótinu og var sleginn út á sama tíma og Eowyn í 16 manna úrslitum og endaði í 9 sæti karla.