Okkar keppendur luku keppni á EM í bogfimi í dag.
Ewa Ploszaj stóð sig frábærlega en meira er fjallað um hana í þessari grein http://archery.is/ewa-i-17-saeti-a-em-og-var-gifurlega-oheppin/
Einnig var þetta í fyrsta skipti sem sveigbogi kvenna kemst í útsláttarkeppni sem er hægt að lesa meira um í annari grein á archery.is
Haraldur Gústafsson náði ekki inn í top 104 og inn í útsláttarkeppnina en hann var lengi í harðri baráttu við ólympíufarann Emanuele Guidi frá San Marínó um síðasta sætið inn í útsláttarkeppnina. Þeir voru jafnir í næst síðustu umferð undankeppninnar en Guidi rétt hafði Harald í siðustu umferðinni og Haraldur lenti því í 105 sæti.
Guðmundur Örn Guðjónsson og Sigurjón Atli Sigurðsson komust báðir inn í útsláttarkeppnina en töpuðu sínum fyrsta útslætti og enduðu jafnir í 57 sæti. Guðmundur var í 96 sæti eftir undankeppni með 594 stig og lenti á móti Maximilian Weckmuller frá Þyskalandi og tapaði 7-1. Sigurjón var í 86 sæti með 612 stig eftir undankeppni og lenti á móti Gasper Strajhar frá Slóveníu og tapaði 6-2.
Sigurjón var stunginn í bakið….. af býflugu á official practice en varð ekki meira meint af, honum fannst honum hafa gengið illa í fyrstu umferð undankeppninnar, hann “var ekki að finna skotið” en stóð sig samt vel á mótinu. Sigurjón tók smá striptease skipti um bol á keppnisvellinum og fékk pening í buxnastrenginn sem verðlaun.
Guðmundur er enn að díla við heilsuvandamál og stóð sig vegna þess hörmulega í undankeppni trissuboga en lagaðist í síðustu 3 umferðunum og var svo ágætlega haldinn í sveigboga undankeppninni en orðinn gífurlega þreyttur, sérstaklega í útsláttarkeppni sveigboga sem var strax eftir undankeppni. Hann var að ströggla við að ná að skjóta örvunum. Morguninn eftir var útsláttarkeppni trissuboga þar sem Guðmundur var örlítið betri heilsu en tapaði útslættinum á móti Micheal Matzner frá Austurríki 144-140.
Maciej Stephien var ekki viss um að hann kæmist á mótið sökum heilsu og var búinn að tilkynna að hann kæmi ekki. En hann skipti um skoðun á síðustu stundu og pantaði flug 3 dögum fyrir mótið. Hann endaði í 89 sæti eftir undankeppni með skorið 636 og tapaði svo í útsláttarkeppni á móti Frakkanum Pierre-Julien Deloche 147-141.
Justyna Gawronska var að keppa í fyrst sinn á alþjóðlegu móti en hún er nýlega búin að fá rétt til að keppa fyrir Ísland. Hún er upprunalega Pólsk eins og Maciej og Ewa og því gaman fyrir þau að keppa á móti sínu fyrrum heimalandi á EM fyrir Ísland. Justyna er búin að vera tengd bogfimi lengi og var meðal annars sjálfboðaliði á síðustu Heimsbikarmóta röð þar sem 1 af 4 var haldið í Wroclaw i Póllandi. Hún byrjaði svo sjálf í bogfimi að mestu eftir að hún flutti til Íslands. Þetta mót var að mestu upp á reynslu og þekkingu fyrir hana þar sem hún hefur ekki mikla móta reynslu og var því ekki búist við miklu frá henni. Justyna endaði í 84 sæti með 357 stig. Í útsláttarkeppninni lenti hún á móti Natalia Lesniak frá Póllandi og tapaði 6-0.
Sigríður Sigurðardóttir endaði í 82 sæti eftir undankeppni og tapaði svo sínum útslætti 6-0 á móti Denisa Barankova frá Slóvakiu.
Astrid Daxböck keppti í bæði trissuboga og sveigboga á mótinu. Í trissuboga var Astrid í 51 sæti með skorið 584 stig og endaði í 33 sæti eftir að tapa útslættinum 146-134 á móti Kristina Heigenhauser frá Þýskalandi. Í sveigboga undankeppni var Astrid í 83 sæti með 470 stig sem er óvenju lágt skor fyrir hana og líklega það lægsta sem hún hefur skorað í keppni. Í útsláttarkeppni sveigboga tapaði Astrid 6-0 á móti Khatuna Narimanidze frá Georgíu.
Að öðru leiti gekk mótið fínt fyrir sig aðstæður eru góðar veðrið er frábært, lítill vindur, sól flesta dagana og hiti í kringum 20°. Æfingarsvæðið var gott og völlurinn og aðstæðurnar betri en í fyrra á European Grand Prix.
Þess má geta að vinir okkar frá Lúxemborg tóku ótrúlega syrpu á mótinu og unnu brons í liðakeppni sveigboga karla og 1 af 5 liða sætum á Evrópuleikana. Allir útslættirnir þeirra enduðu í jafntefli og þyrftu að útkljá alla útslættina í bráðabana. Þeir voru í 16 sæti eftir undankeppni og þetta er því gífurlegur árangur hjá þeim.
https://worldarchery.org/news/162511/luxembourg-qualifies-surprise-team-minsk-2019-european-games