Anna Yu þrefaldur Íslandsmeistari U18 á laugardaginn

Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir úr Boganum Kópavogi vann alla þrjá Íslandsmeistaratitla U18 sem henni stóð í boði að keppa um á Íslandsmóti U18 sem haldið var laugardaginn 8 mars.

Í einstaklingskeppni sveigboga kvenna U18 kepptu í gull úrslitaleiknum Anna og Eva Kristín Sólmundsdóttir úr ÍFA Akureyri. Gull úrslitaleikurinn milli þeirra endaði í jafntefli 5-5 og þurfti því bráðabana til að ákvarða sigurvegarann. Anna og Eva skutu báðar 10 fullkomið skor, en ör Önnu var nær miðju og hún því sigurvegari leiksins og tók titilinn.

Í einstaklingskeppni (óháð kyni) sveigboga U18 kepptu í gull úrslitaleiknum Anna og liðsfélagi hennar Baldur Freyr Árnason. Anna vann úrslitaleikinn 7-3 í mjög jöfnum leik, þar sem að munurinn var oft talinn í millimetrum í hver tæki hvaða lotu og endanlega titilinn.

Í sveigboga félagsliðakeppni tóku Anna og Baldur Freyr Árnason liðsfélagi hennar Íslandsmeistaratitilinn í liðakeppni. Þau tók sigurinn 1122-978 gegn ÍFA Akur sem endaði í 2 sæti.

Anna og Baldur slógu einnig Íslandsmetið í félagsliðakeppni með skorið 1122, Íslandsmetið var áður 996 stig.

Fullkomin frammistaða hjá Önnu á ÍM U18. Það er lítið meira hægt að gera en að vinna allt.

  • Íslandsmeistari sveigbogi U18 kvenna
  • Íslandsmeistari sveigbogi U18 (óháð kyni)
  • Íslandsmeistari sveigbogi U18 félagsliðakeppni
  • Íslandsmet sveigboga U18 félagsliðakeppni 1122 stig (met áður 996)