
Alfreð Birgisson ÍFA Akureyri vann fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn óháð kyni á Íslandsmeistaramótinu í dag. Alfreð tók einnig silfur í karla og silfur í félagsliðakeppni á mótinu.
Í einstaklingskeppni óháð kyni vann Alfreð gullið. Alfreð sat hjá í 16 manna úrslitum, vann í 8 manna úrslitum 144-143, í undanúrslitum vann Alfreð leikinn 145-140 og var því kominn í Gull úrslitaleikinn. Úrslitaleikurinn var gegn Ragnari Smára Jónassyni úr BFB og var mjög jafn. Alfreð byrjaði 1 stigi undir í fyrstu umferðinni og sú forysta Ragnars hélst fyrstu 3 umferðinar. Í fjórðu umferðinni náði Alfreð að snúa leiknum við í 1 stigs forystu sér í vil og bætti það svo um 1 stig í viðbót í síðustu umferð leiksins og Alfreð tók endanlega sigurinn og titilinn óháð kyni 142-140. Þórdís Unnur Bjarkadóttir BFB tók brons úrslitaleikinn gegn Önnu Maríu Alfreðsdóttir ÍFA 140-137.
Í einstaklingskeppni karla tók Alfreð silfrið. Alfreð sat hjá í 16 manna úrslitum, vann leikinn í 8 manna úrslitum 140-117, undanúrslitaleikinn 144-138 og endaði þar aftur að keppa í gull úrslitaleiknum gegn Ragnari Smára Jónassyni úr BFB. Þar fór leikurinn þó ekki Alfreð í vil og Ragnar tók titilinn 143-141. Magnús Darri Markússon BFB tók brons úrslitaleikinn á móti Jóhannes Karl Klein 137-133.
Í félagsliðakeppni tók Alfreð með liðsfélögum sínum í ÍF Akri silfrið eftir tap í gull úrslitaleiknum gegn BF Boganum 228-216. BF Hrói Höttur tók bronsið gegn liði BFB í brons úrslitaleiknum.
Alfreð sló einnig Íslandsmetið í félagsliðakeppni með liðsfélögum sínum Önnu Maríu Alfreðsdóttir og Benedikt Tryggvason. Með 223 stig á meðan metið var 221 stig áður. Þau fengu þó ekki að fagna metinu lengi þar sem að annað félag sló metið aftur síðar á Íslandsmeistaramótinu.
Flott og sterk frammistaða frá Alfreð á ÍM eins og við erum öll orðin vön:
Samantekt af árangri Alfreðs á ÍM:
- Íslandsmeistari óháð kyni
- Silfur karla
- Silfur félagsliða
En silfur verðlauna áskriftin eltir Alfreð enþá, en þó vægara en áður. Kannski kemur “gullið” með aldrinum (Alfreð komst nánast alltaf í gull úrslitaleik allra Íslandsmeistaramóta frá árinu 2019. En endaði svo nánast alltaf á því að tapa gull úrslitaleiknum, en oft gegn mismunandi andstæðingum á hverju ári og oft með grátlega littlum mun. Þetta gerðist svo oft að það var byrjað að tala um að Alfreð væri í áskrift að silfri á öllum Íslandsmeistaramótum.)
Sýnt var beint frá úrslitaleikjum mótsins á Archery TV Iceland rásinni.
https://www.youtube.com/@ArcheryTVIceland/streams
Þrír af fjórum Íslandsmeistaratitlum skiptu um hendur á ÍM trissuboga í M.fl.