Alfreð Birgisson frá Akureyri endaði í 17 sæti á EM í parakeppni með liðfélaga sínum og dóttur Önnu Maríu Alfreðsdóttir, eftir að þau voru slegin út af EM í leik gegn Finnlandi 151-142.
Það gekk óvenju illa hjá Alfreð í undankeppni EM þar sem hann skoraði aðeins 654 stig og hann var í einhverjum vandræðum með bogann og form, en dugði honum þó til þess að komast áfram eftir undankeppni EM.
Í einstaklingskeppni á EM (útsláttarkeppni) þá gekk nokkuð betur hjá Alfreð en í undankeppninni og hann sló Vitalii frá Úkraínu 139-138 út af EM í 96 manna útsláttarleiknum. Í næsta leik (48 manna útsláttarleikjum) gegn Lukasz frá Póllandi komu upp svipuð vandamál og voru að hrjá Alfreð í undankeppni og hann tapaði leiknum 142-130. Alfreð var að grúppa vel, vandamálið var bara að hann var með tvær grúppur, eina í 6 og 7 og eina í 10 og 9.
Þó að vandamál hafi bjátað á þá var nokkuð flott að Alfreð náði að vinna fyrsta leikinn og þó að frammistaðan hafi ekki verið sú besta í undankeppni getur hann verið sáttur við loka niðurstöðurnar miðað við aðstæður á EM.
Evrópumeistaramótið utandyra var haldið í Essen 7-12 maí síðastliðinn á Rhine-Ruhr svæðinu í Þýskalandi. Um 40 þjóðir og 400 þátttakendur voru á EM að þessu sinni. Hver þjóð má aðeins senda 6 karla og 6 konur í undankeppni EM og venjan hefur verið að Ísland hafi sent fullan kvóta keppenda í undankeppni EM. En þátttaka Íslands að þessu sinni var óvenju lág meðal karla og aðeins einn maður sem lagði för sína á mótið en fullt lið kvenna í trissuboga og sveigboga.