Áætlaðar breytingar á NM ungmenna 2026

Eftir fund Norðurlanda í desember voru nokkrar ákvarðanir um breytingar á NM ungmenna (NUM) teknar sem er vert fyrir fólk að vita af.

U16 verður breytt í U15:

Meðal ástæðana þessarar breytingar er að World Archery tók upp U15 viðmið fyrir alþjóðlega keppni sem viðmið á heimsþingi 2023. Norðurlöndin ákváðu að bíða með að breyta því á NUM 2024 og 2025 af því að of stutt var á milli Norðurlandafundar og mótsins til þess að fólk hefði góðan fyrirvara á breytingunni, og ákveðið að benda fólki frekar á að þessi breyting yrði líklega gerð í framtíðinni. Þetta verður fyrst gert árið 2026 í Finnlandi til prufu og svo endurmetið eftir mótið hvort að haldið áfram verður með U15 flokk og samræmingu við viðmið WA (sem er líklegt) eða að skipt verði aftur í U16. BFSÍ mun líklega halda í U16 flokk á Íslenskum mótum þar til að eftir að sú ákvörðun verður tekin af WAN eftir NUM 2026. Ef að WAN ákveður að halda áfram með U15 þá er líklegt að BFSÍ breyti um næstu áramót (2026-2027) í U15 flokk einnig á Íslenskum mótum til að samhæfa við Norðurlöndin og WA. Gaman er að geta þess að árið 2018 breytti Ísland úr U15 í U16 til að samhæfa við Norðurlöndin, og því væri aðeins verið að snúa aftur í sömu reglur og flest lönd fara þegar eftir í aldursflokka viðmiðum, 3 ár per aldursflokk ungmenna. Ísland gerði breytinguna þar sem að eini alþjóðlegi viðburður sem Íslensk ungmenni tóku þátt á var NM ungmenna og því vert að samhæfa við WAN reglur. Haldið áfram verður með U21Open flokkinn í sveigboga á 50 metrum og því geta þau ungmenni sem eru 15 ára og gátu áður keppa á 40 metrum kosið að keppa þeim flokki ef þau eru ekki tilbúin til að keppa í á lengri fjarlægðum (60m í U18 eða 70m í U21)

Lið breytast úr 3 manna í 2 manna kynlaus lið:

Liðakeppni var breytt úr 3 manna í 2 manna lið fyrir NUM 2026. Meðal ástæðna er að Svíþjóð vill prófa þetta form af liðakeppni þar sem þeir breyttu 2025 úr 3 manna í 2 manna lið á sínum ungmenna landsmótum og hefur gengið vel að þeirra mati. Ísland breytti í 2 manna kynlausa liðakeppni í ungmenna keppni frá árið 2021 og þetta samhæfist því vel BFSÍ og Íslenska fyrirkomulaginu. Því mætti segja að liðakeppni á NUM verði eftir Íslenska módelinu, sem ætti að auðvelda Íslenskum keppendum að skilja reglurnar líka. Á mörgum alþjóðlegum ungmennamótum (s.s. Universiade og Youth Olympics) hafa einnig verið 2 manna liða og miklar líkur eru á því að WA muni breyta í 2 manna liðakeppni á ÓL og mögulega víðar í framtíðinni (það er til umræðu og gæti komið til á ÓL 2028, en líklegra að það gerist á ÓL 2032). 2 manna liðakeppni mun einnig taka styttri tíma en 3 manna liðakeppni. Einnig flækist fyrir sumum mótastarfsmönnum að setja upp 3 manna lið í samræmi við núverandi viðmið (eins og sást greinilega á NUM 2025 í Svíþjóð), ásamt því að einfaldara verður að eiga við “no shows” í 2 manna liðakeppni. Þetta liðaform er einnig til prufu 2026 og verður endurmetið eftir reynslu á því NUM.

Tíma breytt úr 40 sekúndum í 30 sekúndur:

Tími til að skjóta hverri ör verður breytt úr 40 sekúndum í 30 sekúndur í einstaklingskeppni. Þetta er m.a. til þess að reyna að stytta mótið, sem hefur oft tafist mikið í gegnum tíðina (meðal töf er 3 klst á dag). Þetta er einnig í samræmi við að WA breytti tíma í 30 sekúndur á öllum sínum alþjóðlegu mótum. Með öllum þeim tímasparnaði sem er verið að setja upp á NUM gæti myndast möguleiki á því að bæta við frekari atriðum/keppnum í framtíðinni við NUM fyrir keppendur, eða kannski að mótið verði bara “á réttum tíma” í fyrsta sinn um margra ára bil. Tíminn verður til prufu á NUM 2026 og endurmetið eftir það. Búnaðarbilun verður hinsvegar en leyfileg á NUM.

Aðrar breytingar:

Margar aðrar smávægilegar breytingar og skýringar verða gerðar á viðmiðum Norðurlanda um Norðurlandamót. Flestar af þeim munu ekki hafa mikil áhrif á þátttakendur. En nákvæmt fyrirkomulag á hvernig reglurnar verða settar upp er ekki formlega komið út. En verður líklega lagt fyrir á fundi í janúar og ný viðmið birt eftir það.

Það var sett í hendur íþróttastjóra BFSÍ að skrifa drögin að uppfærslum “WAN guidelines” í samræmi við ákvarðanir fundarins. Ásamt því að bæta skráningarformið fyrir NUM, búa til sniðmát fyrir skipulag/dagskrá, skapa GDPR viðmið fyrir Norðurlanda viðburði… og eiginlega allt sem ákveðið var að gera var hann beðinn um að taka að sér, aðallega vegna reynslu og þekkingu hans. Þau drög eru tilbúin og verða svo yfirfarin af Rolf (formanni Sænska sambandsins og fyrrum heimsdómara) og Gumma (íþróttastjóra BFSÍ og núverandi heimsálfudómara) saman og drögin líklega lögð fyrir fund í janúar og uppfærð WAN viðmið birt eftir það.

Eitthvað af þessum (óformlegu) upplýsingum hefur þegar verið sett inn á síðu BFSÍ um NUM. En þar inn eru settar allar upplýsingar (formlegar og óformlegar) um NUM strax og upplýsingar berast til BFSÍ, svo að allir hafi greiðan aðgang að nýjustu upplýsingum þegar þeir vilja fletta þeim upp. Strax og frekari upplýsingar eða ný viðmið eru komin út verða þau birt á þeirri síðu.

NM ungmenna (NUM)