Þórdís Unnur Bjarkadóttir yngsti þjálfarinn með alþjóðleg þjálfararéttindi

Garðbæingurinn Þórdís Unnur Bjarkadóttir úr BF Boganum í Kópavogi náði alþjóðlegum þjálfararéttindum stigi 1 um helgina eftir viku langt námskeið á vegum Alþjóðabogfimisambandsins (World Archery – WA), Bogfimisambands Íslands (BFSÍ) og Ólympíusamhjálpinni (Olympic Solidarity – OS).

Yngsti einstaklingur sem vitað er til að setið hafi og náð alþjóðlegum þjálfararéttindum innan WA er Þórdís aðeins 14 ára gömul. WA voru með efasemdir um mögulegt getustig svo ungs einstaklings þar sem þroskastig einstaklinga er mjög mismunandi á yngri aldri, en WA lagði endanlega matið í hendur prófdómara námskeiðsins um hvort að þeir vildu taka þá yngri einstaklinga inn á námskeið sem er almennt miðað á fullorðna einstaklinga með töluverða reynslu af íþróttinni.

Þórdís hefur verið að leiðbeina á námskeiðum fyrir yngstu aldurshópa hjá Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi um nokkuð skeið undir handleiðslu reyndra þjálfara og vann einnig Norðurlandameistaratitil í U16 flokki fyrir um mánuði síðan í Finnlandi og var því talin ágætlega reyndur keppandi og leiðbeinandi þrátt fyrir ungan aldur. Prófdómararnir settu hana á varamanna listann þar sem námskeiðið var fullt og Þórdís var því ekki áætluð til þátttöku á námskeiðinu, en ef ske kynni að hún yrði tekin inn þá myndi hún í versta tilfelli falla og þurfa að endurtaka námskeiðið aftur síðar. En Þórdís var tekin inn ásamt nokkrum öðrum yngri kandidötum með skömmum fyrirvara þar sem nokkrir þátttakendur aflýstu sinni þátttöku eða luku ekki þeim verkefnum/menntun sem sitja þurfti fyrir upphaf námskeiðsins.

Þórdís kom öllum og líklega sjálfri sér líka á óvart þar sem hún var með 18,5 af 20 stigum mögulegum á síðasta degi námskeiðsins sem var matsdagurinn. Það samsvarar 9,25 í einkunn og þurfti aðeins 12 af 20 stigum til þess að ná prófi. Þeir sem þekkja til Þórdísar vita væntanlega að hún er mjög málglöð sem er almennt gott merki um að einstaklingur sé góður í að miðla upplýsingum frá sér. Þórdís kom líka öllum á óvart á því hve sterk hún er þar sem hún hennti næstum 2 metra háum víkingi í gólfið þegar hún var að kenna honum 😂

Þó að þátttakendur námskeiðsins séu komnir með mat heimssambandsins til þess að sinna þjálfun í bogfimi alþjóðlega (þau teljast gild í fjölmörgum löndum) eru þau ekki að fullu gild á Íslandi fyrr en þátttakendur hafa lokið ÍSÍ þjálfarastigi 1 samkvæmt viðmiðum ÍSÍ sem BFSÍ starfar eftir. Þórdís þarf því að bíða með að teljast “formlega” þjálfari á Íslandi þar til hún nær 16 ára aldri og lýkur þjálfarastigi 1 hjá ÍSÍ, en mun þó en geta leiðbeint á námskeiðum félagsins síns undir handleiðslu þjálfara þar 😉

Endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár og svo er krafa um endurmenntun, líklega í formi uppbótarnámskeiðs, en ólíklegt að þess þurfi hjá þessum þjálfara þar sem áætlað er að hann muni taka þátt á stig 2 námskeiði World Archery sem áætlað er að verði haldið í ágúst 2023.

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina (Olympic Solidarity (OS)) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Þjálfarakennari World Archery á námskeiðinu var Christos Karmoiris frá Grikklandi. Prófdómarar World Archery á námskeiðinu voru Christos og Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ sem þriðja stigs WA þjálfaramenntaður.

Frekari fréttir af námskeiðinu er hægt að finna á archery.is