Sex keppendur á leið á EM ungmenna í bogfimi. Ísland tekur þátt í fyrsta sinn með eitt af sterkustu liðum mótsins

Sex keppendur munu keppa fyrir hönd Íslands með Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ) á Evrópumeistaramóti Ungmenna utandyra í bogfimi. Mótið fer fram dagana 15-20 ágúst 2022 í Lilleshall í Bretlandi. Lilleshall er ein af þrem landsíþróttamiðstöðvum Bretlands. Keppendurnir sex munu allir keppa í einstaklingskeppni en Ísland er einnig með tvö lið á mótinu, í trissuboga kvenna U21 (3kvk) og trissuboga blandað lið (1kk+1kvk mixed team).

Eftirfarandi munu keppa fyrir Ísland á mótinu

  • Anna María Alfreðsdóttir – Trissubogi kvenna U21 – ÍF Akur (Akureyri)
  • Freyja Dís Benediktsdóttir – Trissubogi kvenna U21 – BF Boginn (Kópavogi)
  • Eowyn Marie Mamalias – Trissubogi kvenna U21 – BF Hrói Höttur (Hafnarfirði
  • Daníel Baldursson – Trissubogi karla U21 – SKAUST (Egilstöðum)
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir – Sveigbogi kvenna U21 – BF Boginn (Kópavogi)
  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested – Sveigbogi kvenna U21- BF Boginn (Kópavogi)

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt á Evrópumeistaramóti ungmenna utandyra, en áætlað var að senda lið í fyrsta sinn árið 2020 en því móti var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Vel er vert er að fylgjast sérstaklega með Íslenska trissuboga kvenna U21 landsliðinu sem verður að teljast mjög sterkt fyrir EM. Stelpurnar þrjár voru allar að skora góð skor í köldu rigningarveðri á Veronicas Cup World Ranking Event í Slóveníu 5-8 maí síðastliðinn. Þar tóku þær tóku gull í liðakeppni í opnum flokki (fullorðinna) og Anna María Alfreðsdóttir vann brons í einstaklingskeppni fullorðinna.


(Frá vinstri: Freyja, Eowyn og Anna)

1979 stig af 2160 stigum mögulegum var loka skor okkar stelpna á heimslistamótinu í Slóveníu. Meðaltal fjögurra efstu liða á EM er 1984 stig m.v. síðustu 3 EM ungmenna 2014-2016-2018 (2020 var aflýst vegna Covid).

Því er hægt að áætla að stelpurnar okkar standi nokkuð jafnar liðum sterkustu þjóða í Evrópu (s.s. Ítalíu, Tyrklandi, Rússlandi, Bretlandi). Þetta verður spennandi Evrópumeistaramót fyrir Íslensku trissuboga stelpurnar og okkur að fylgjast með heima. Og ekki er hægt að segja að Evrópumeistaratitilinn sé utan seilingar fyrir Ísland ef dagsformið hittir vel á.

Í blandaðri liðakeppni (1kk+1kvk) í trissuboga er talið öruggt að Ísland komist í 16 liða úrslit og líklegt að liðið komist í 8 liða úrslit, en talið ólíklegt að liðið komist í brons eða gull úrslitaleikinn. Aðeins Daníel Hvidbro Baldursson mun keppa fyrir Ísland í trissuboga U21 karla og hann mun því skipa blandaða liðið með hæsta skorandi trissuboga stelpuni frá Íslandi.

Anna María Alfreðsdóttir í trissuboga kvenna er einnig talin mjög líklegt til þess að komast í einstaklings úrslit mótsins og jafnvel til þess að komast á pall fyrir Ísland. Anna var í fjórða sæti á Evrópumeistaramóti ungmenna innandyra í febrúar og vann bronsið á heimslistamóti fullorðinna í Slóveníu í maí (Veronicas Cup, El Salvador tók gullið og Slóvenía silfur). Þar bætti Anna einnig Íslandsmet fullorðinna og U21.

Ef Marín Aníta Hilmarsdóttir í sveigboga kvenna U21 heldur áfram að bæta Íslandsmetin í U21 og fullorðinna í ár, eins og hún hefur gert í gríða og erg síðustu ár þá er líklegt að við sjáum hana meðal top 25% keppenda á mótinu í einstaklingskeppni. Lágmarks skor fyrir Ólympíuleika var hækkað úr 605 í 610 stig fyrir Ólympíuleikana í París 2024, en hæsta skor Marínar 2021 var 616 og er en á hraðri uppleið. Þannig að ef vel gengur hjá Marín mun þá fara eftir dagsformi keppanda í útsláttarkeppni hver endar í úrslitum mótsins í sveigboga kvenna U21.


Raunhæft áætlað munu a.m.k. 4 af 6 keppendum Íslands komast í 16 manna eða liða úrslit á mótinu eða hærra, og möguleiki á verðlaunasæti til staðar í fleiri en einni grein. Sem væri nokkuð góð uppskera fyrir fyrsta Evrópumeistaramót ungmenna utandyra í bogfimi sem Ísland hefur tekið þátt í. En sjáum til þegar úrslit EM liggja fyrir í ágúst.