Reglubreytingar tími per ör breytist úr 40 í 30 sekúndur 15 janúar

Nokkrar reglugerðabreytingar (bylaws) voru samþykktar á tímabilinu stjórnarfundum heimssambandsins. Mest eftir þingið í september og er nú búið að gefa út gögnin og gildistíma þeirra.

Breytingarnar sem gerðar voru ættu ekki að hafa mikil áhrif á íþróttamenn á Íslandi, nema stóra breytingin um tíma í öllum mótum sem mun breytast úr 40 sekúndum per ör í 30 sekúndur per ör.

Sú breyting mun taka gildi 15 janúar 2022 og munu mót á þeim degi og síðar því fara eftir nýju tímareglunum.

Það þýðir að tími breytist á eftirfarandi veg:

  • innandyra skotið 3 örvum, tími breytist úr 120 sekúndum í 90 sekúndur
  • utandyra skotið 6 örvum, tími breytist úr 240 sekúndum í 180 sekúndur
  • lokakeppni einstaklinga (útsláttarkeppni) skotið 3 örvum, tími breytist úr 120 sekúndum í 90 sekúndur
  • lokakeppni liða (útsláttarkeppni) mun tíminn halda áfram eins og var áður 20 sekúndur per ör
  • sjónvörpuð úrslit (alternate shooting finals) mun tíminn halda áfram eins og var áður 20 sekúndur per ör í einstaklinga og liða.

Helsta ástæða þessarar breytingar er til þess að reyna að stytta tíma lengd og þar með kostnað alþjóðlegra verkefna. HM og heimsbikarmót taka almennt um 8-10 daga í heild. Því er mikill kostnaður sem fylgir þátttöku á þeim og mótin taka alltaf yfir tvær helgar í alþjóðlega mótaskipulaginu. Sem gerir mótahald landssambanda og annarar aðila erfiðara þar sem það skarast þá oftast á við mót heimssambandsins og fækkar tækifærum til mótahalds. Áætlað er að með þessari breytingu sé hægt að stytta mót heimssambandsins um 1 dag og markmið heimssambandsins er að með framtíðar breytingum verði hægt að stytta mótin niður í eina viku (7 daga).

Fleiri breytingar voru lagðar fram á heimsþinginu sem voru í heildina miðaðar á að stytta stór alþjóðleg mót í 7 daga, en þær voru flestar ekki samþykktar á þingi. Ein sú helsta var að breyta undankeppni utandyra í sama fyrirkomulag og innandyra, semsagt að fjöldi örva í undankeppni væri 60 örvar innandyra og utandyra í stað þess fyrirkomulags sem er í dag sem er 60 örvar innandyra og 72 örvar utandyra. En hún var ekki samþykkt og því mun undankeppni utandyra halda áfram að vera 72 örvar og undankeppni innandyra heldur áfram að vera 60 örvar.

 

Þar sem BFSÍ fer eftir reglum WorldArchery í sínum mótum þá mun þessi breyting einnig taka gildi á Íslandi 15 janúar.

Hægt er að sjá reglubreytingar á tímabilinu hér: https://extranet.worldarchery.sport/documents/index.php?dir=839