Orðið Þömb = bogastrengur

Bogfimi hefur verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi. Það eru til ýmis gömul íslensk orð sem tengjast bogfimi sem lítið eru notuð í dag. Eitt slíkt skemmtilegt orð er orðið þömb sem heiti á bogastreng. Til forna voru bogastrengir oft gerðir úr þörmum dýra. Þömb og þarmar eru þannig líklega náskyld orð. Eftirfarandi er myndband sem sýnir hvernig búa á til bogastreng úr görnum.

Skemmtilegt dæmi um notkun á orðinu þömb kemur fram í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. En þar segir m.a. frá miklum bogfimikappa sem hafði viðurnefnið þambarskelfir. Þambarskelfir þýðir væntanlega sá sem tekur hraustlega í bogastreng. Kappi þessi hét Einar þambarskelfir og var hann á Orminum. Ormurinn langi var víkingaskip Ólafs konungs Tryggvasonar í Noregi. Einar skaut af boga og var allra manna harðskeytastur. Þegar bogi Einars brást í tvo hluta í miðri orustu mælti Ólafur konungur “Hvað brast þar svo hátt?” Einar svarar: “Noregur úr hendi þér konungur.” “Eigi mun svo mikill brestur orðinn.” Sagði konungur, “tak boga minn og skjót af” og kastaði boganum til hans. Einar tók bogann og dró þegar fyrir odd örvarinnar og mælti: “Of veikur, of veikur allvalds bogi.”

Orðið þömb eða þambar hefur ekki verið notað sem heiti á bogastreng á Íslandi lengi. Hins vegar halda frændir okkar í Færeyjum uppá þetta orð og heitir eitt af bogfimifélögunum þar í landi Þambar eða Tambar upp á færeysku.