Marín “jafnar” Evrópumetið í U18 og sló Íslandsmetið í U18 588 af 600 mögulegum

Marín Aníta Hilmarsdóttir í BF Boganum sló Íslandsmetið í sveigboga kvenna U18 í gær þegar hún keppti í ungmennadeild BFSÍ, 588 stig af 600 mögulegum. Evrópumetið í U18 flokki er einnig 588 stig.

Úrslit mótsins verða birt um mánaðarmótin á Ianseo þegar að öllum niðurstöðum hefur verið skilað inn frá aðildarfélögum BFSÍ.

 

Það er þó smá munur á þar sem U18 flokkur á Íslandi keppir á 60cm skífu en heimsmet og Evrópumet fyrir U18 eru gefin fyrir keppni á 40cm skotskífu. Núverandi U18 Evrópumetið var slegið í U21 flokki á heimsmeistaramóti innadyra í Ankara af Tatiana Andreoli frá Ítalíu.

Í reglum WA þá eru U18, U21 og Opinn flokkur að skjóta á 18 metrum á 40cm skífu, en engin mót eru haldin í U18 flokkum innandyra af Evrópu- eða heimssambandinu. U16 á Íslandi skjóta á 12 metrum á 60cm skífu, því taldist æskilegt að færa U18 flokkinn á 60cm skífu til þess að aukning erfiðleikastigs eftir aldursflokkum sé náttúrulegra fyrir meirihluta iðkenda. Annars væri gífurlegt hopp á milli U16 og U18 aldursflokka í erfiðleikastigi. Einstaklingar sem eru í U18 flokki geta einnig keppt í U21 og opnum flokki þar sem þeir hafa tækifæri á því að slá heims- og/eða Evrópumet í U18 flokki.

Aldur Metrar Skífa
U16 12 60
U18 18 60
U21 18 40
Fullorðnir 18 40

Þetta frábær árangur hjá Marín. Til samanburðar þá er Íslandsmetið í trissuboga U18 kvenna 575 stig og því ekki ýkjur að segja að hún sé vafalaust besta kona í U18 flokki í sögu íþróttarinnar óháð keppnisgrein.

Þetta er síðast ár Marínar í U18 flokki því hún verður 18 ára á næsta ári. En Marín vann einnig Norðurlandameistaratitilinn í sveigboga kvenna U18 og var valin íþrótta kona ársins hjá BFSÍ.