Marín heldur yfirburðum tók fimmta Íslandsmeistaratitil kvenna og vann alla karlana í kynlausu keppninni líka

Marín Aníta Hilmarsdóttir í BF Boganum í Kópavogi hélt áfram sigurgöngu sinni í sveigboga kvenna á Íslandsmeistaramótinu á sunnudaginn síðastliðinn. Marín hefur unnið 5 af 6 Íslandsmeistaratitlum síðustu 3 ár. Marín mætti Valgerði E. Hjaltested úr sama félagi í gullúrslitaleik Íslandsmeistaramótsins þar sem Marín hafði betur 7-3. Mikil og hörð samkeppni hefur verið milli Marínar og Völu á þessu ári og endaði m.a. gullúrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn innandyra í bráðabana milli þeirra (ein ör nær miðju vinnur) en þar hafði Marín einnig betur. Marín og Vala munu keppa saman á Evrópumeistaramóti Ungmenna í næsta mánuði og án vafa munu þær líklega keppa jafn mikið við hver aðra og við aðra keppendur á EM.

Astrid Daxböck úr BF Boganum tók öruggann sigur 6-0 í bronsúrslitaleiknum á Íslandsmeistaramótinu gegn Rakel Arnþórsdóttir úr ÍF Akur á Akureyri.

Marín vann einnig titilinn í sveigboga parakeppni og í sveigboga kvenna liðakeppni ásamt liðsfélögum sínum úr BF Boganum. Semsagt öll fjögur gullin sem Marín gat unnið vann hún. Einstaklinga, liða, para og kynlaus keppni.

Marín vann nýja viðbót á Íslandsmeistaramótum, kynlausu keppnina, 6-2 gegn Oliver Ormar Ingvarssyni úr BF Boganum. Kynlausri (unisex) keppni var óformleg viðbót á þessu Íslandsmeistaramóti m.a. til þess að koma á móts við kynsegin einstaklinga og til að gefa konum og körlum færi á því að keppa gegn hvert öðru á hæsta stigi. Einni kynsegin einstaklingur keppti á mótinu í berbogaflokki án þess að þurfa að skilgreina sig í kynjaflokk. Áætlað er að bæta kynlausri keppni við sem formlegum parti af Íslandsmeistaramótum í framtíðinni þegar að búið er að finna út úr skipulagsmálum, þar sem viðbótin lengir mótið töluvert. Haraldur Gústafsson úr Skaust á Egilstöðum vann brons úrslitaleikinn í kynlausu keppninni í harðri baráttu 6-4 gegn Astrid Daxböck úr BF Boganum í Kópavogi.

Íslandsmeistarar kvenna

Íslandsmeistaramótið var haldið á Hamranesvelli í Hafnarfirði 9-10 júlí. Veðrið á laugardeginum þegar að trissuboga og berboga flokkar kepptu var með því versta sem sést hefur á móti á Íslandi. Stormur og rigning fyrri part dagsins sem skánaði seinni partinn. Öll skotmörkin fuku niður í æfingaumferðum og það brotnuðu örvar hjá nokkrum keppendum. Undankeppni trissuboga og berboga var frestað svo að mögulegt væri að festa skotmörkin almennilega og bjarga þeim keppendum um örvar sem vantaði örvar upp á.

Það orsakaði mikla tímatöf í skipulagi mótsins sem var þegar þétt setið. Ekki var mögulegt að fresta mótinu til sunnudags þar sem ekki allir keppendur komust á þeim degi og búið var að auglýsa mótið á laugardeginum. Til að koma því fyrir að mótið gæti verið haldið var undankeppni stytt í 3 umferðir í stað 12 og tíminn til að skjóta örvunum var lengdur til að gefa keppendum færi á því að geta skotið örvunum. Sem betur fer lægði lítillega seinni hluta dags þegar að úrslitaleikirnir voru í trissuboga og berboga. Til samanburðar við storminn á laugardeginum var veðrið var frábært á sunnudeginum þegar að sveigbogaflokkar kepptu, en þó samt einhver vindur og rigning sem setti strik í skorin.