Kristján Guðni Sigurðsson alþjóðlegur bogfimiþjálfari stig 1

Kristján Guðni Sigurðsson í Skotíþróttafélagi Ísafjarðar (SkotÍsa) stóð sig prýðilega á alþjóðlega þjálfaranámskeiði Alþjóðabogfimisambandsins World Archery sem haldið var í síðustu viku í Bogfimisetrinu.


Það er farið að slaga í áratug sem Kristján hefur starfað sem leiðbeinandi/þjálfari í íþróttinni og er megin aðili í útbreiðslu íþróttarinnar á Vestfjörðum. En einhvern vegin hefur alltaf farið framhjá honum að komast á námskeið heimssambandsins þegar þau voru haldin hér 2015 og 2017, eins mikið og honum hefur langað á þau. Því kom það líklega fáum á óvart miðað við þá reynslu sem Kristján hefur að hann náði 19 af 20 mögulegum stigum í mati prófdómara námskeiðsins, sem samsvarar 9,5 í einkunn. Kristján tjáðist hafa lært mikið af námskeiðinu og muni geta notfært sér þessa þekkingu bæði fyrir sjálfan sig og til að aðstoða aðra við að kynnast og komast lengra í íþróttinni á Vestfjörðum.

Endanleg staðfesting og skírteini munu berast frá WA á næstu vikum eftir að skýrsluskilum og viðeigandi form hafa verið fyllt út. Alþjóðlegu þjálfararéttindin gilda í fjögur ár og svo er krafa um endurmenntun, líklega í formi uppbótarnámskeiðs, en ólíklegt að þess þurfi hjá þessum þjálfara þar sem áætlað er að hann muni taka þátt á stig 2 námskeiði World Archery sem áætlað er að verði haldið í ágúst 2023.

Þjálfaranámskeið stig 1 heimssambandsins World Archery (WA) var haldið af Bogfimisambandi Íslands í Bogfimisetrinu dagana 2-7 ágúst. Námskeiðið var haldið í samstarfi við ÍSÍ og Ólympíusamhjálpina (Olympic Solidarity (OS)) sem stendur undir meirihluta kostnaði námskeiðsins. Þjálfarakennari World Archery á námskeiðinu var Christos Karmoiris frá Grikklandi. Prófdómarar World Archery á námskeiðinu voru Christos og Guðmundur Örn Guðjónsson Íþróttastjóri BFSÍ sem þriðja stigs WA þjálfaramenntaður.

Frekari fréttir af námskeiðinu er hægt að finna á archery.is

kristjan-gudni-sigurdsson-althjodlegur-bogfimithjalfari-stig-1