Guðbjörg vann leikinn 7-3 í 16 manna úrslitum á EM í kvöld. 8 mann úrslit eru á morgun

Guðbjörg Reynisdóttir vann gegn Regina Karkoszka frá Póllandi í 16 manna úrslitum í kvöld á Evrópumeistaramótinu innanhúss í bogfimi.


Stelpurnar jöfnuðu fyrstu umferðina 1-1, Regina náði svo forskoti 3-1 í umferð 2 og Guðbjörg var ekki að skjóta sitt besta í fyrstu tveim umferðunum. Guðbjörg tók svo næstu þrjár umferðir af miklu öryggi með ótrúlega góðu skori og vann leikinn örugglega 7-3

 

Guðbjörg mun því keppa í 8 manna úrslitum á morgun um miðjan dag gegn Laura Turello frá Ítalíu.

Guðbjörgu gekk ekki frábærlega í byrjun undankeppni EM og var neðarlega á listanum eftir fyrstu nokkrar umferðinar. Hún fann sitt strik í seinni hlutanum og vann sig aftur upp í 5 sæti en gerði svo eitt “úps” skot í næst síðustu umferðinni og féll niður í 11 sæti í undankeppni mótsins. En miðað við nánast fullkomið skor hennar í síðustu þrem umferðum útsláttarleiksins á móti Regina er Guðbjörg greinilega búin að finna hvað var að angra hana og laga það.

Guðbjörg keppti einnig til brons verðlauna á EM U21 í annarri íþróttagrein 2019 (víðavangsbogfimi).

Þetta er í fyrsta sinn sem berbogi er keppnisgrein á Evrópumeistaramóti en viðbót flokksins á EM innandyra var bætt við á síðasta þingi Evrópusambandsins. Það væri ansi flott ef að fyrsti Evrópumeistari í berboga kvenna væri Íslensk. Sá möguleiki er en til staðar.

Ítalía er sterkasta þjóð í berboga flokki kvenna og allar Ítölsku stelpurnar eru í 8 manna úrslitum, hver þjóð má senda að hámarki 3 keppendur í hverjum flokki á EM. Cinzia frá Ítalíu sem var efst í undankeppni sló Evrópumetið í berboga kvenna með þrem stigum. En Guðbjörg átti það Evrópumet árið 2020 þó er búið að slá það met nokkrum sinnum síðan þá.