Guðbjörg tryggði sér sæti í undanúrslitum EM þrátt fyrir meiðsli

Guðbjörg vann riðlakeppnina á EM í dag og verður ein af 4 keppendum sem keppa í undanúrslitum á EM í víðavangsbogfimi í Slóveníu.


Ítalía og Svíþjóð eru venjulega þjóðirnar sem eru sterkastar í Evrópu í berboga flokki. Þetta er í annað sinn sem Ísland keppir í víðavangsbogfimi á EM og ánægjulegt að sjá strax einhvern í úrslitum.

Undanúrslitin verða í fyrramálið í Mokrice kastalanum í Slóveníu.

 

Guðbjörg Reynisdóttir vann í dag Phoebe Rose frá Bretlandi örugglega 63-52 í riðlaúrslitunum berboga kvenna U21. Og mun því mæta Eleonora Meloni frá Ítalíu á morgun í undanúrslitum.

Guðbjörg snéri ökla á æfingarsvæðinu fyrir leikinn á móti og átti erfitt með að labba á jafnsléttu og gat því ekki sótt eða skorað örvarnar þar sem flest skotmörkin í víðavangsbogfimi eru í miklum halla og skotið upp eða niður hæðir. Undanþága var veitt af yfirdómara mótsins og liðsstjórinn (Guðmundur Guðjónsson) sótti og skoraði örvarnar fyrir Guðbjörgu í úrslitum riðlakeppninar. Undir venjulegum kringumstæðum mega þjálfarar/liðsstjórar ekki vera hjá keppendum fyrr en í undanúrslitum og úrslitum.

Guðbjörg sigraði með töluverðum mun þrátt fyrir meiðslin 63-52.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir og myndskeið af seinni parti dagsins í dag.

Livestream webcam var í gangi og hægt að horfa á hér https://youtu.be/900KuHZ0peU

Og á Youtube rás Evrópusambandsins https://m.youtube.com/user/worldarcheryeurope