Gott gengi Íslands á EM í bogfimi 2022 og margt um merkileg tímamót

20 skráðir einstaklingar og 6 lið kepptu á Evrópumeistramótinu innandyra í bogfimi 14-19 febrúar 2022 í Lasko Slóveníu.

Ísland var með fjórða mesta fjölda keppenda á EM að þessu sinni á eftir Ítalíu, Rússlandi og Tyrklandi. 30 þjóðir kepptu á mótinu samtals. Þetta endurspeglar þann gífurlega uppvöxt sem hefur verið í íþróttinni á Íslandi á síðusta áratug. Ísland er nú meðal 50 stærstu þjóða eftir iðkendafjölda óháð höfðatölu innan heimssambandsins. Ísland hefur einnig vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi fyrir þann stutta tíma sem íþróttin er búin að vera í virkri þróun á Íslandi og hve landið er langt komið í þróun, skipulagi, þátttöku og árangri.

Á myndinni er hægt að sjá samantekt af loka niðurstöðum Íslands á EM 2022. Gengið er gott, margir í úrslitum og útlit fyrir að það verði ekki langt í að Ísland fari að koma reglubundið með verðlaun heim af EM innandyra í ákveðnum greinum.

Marín Aníta Hilmarsdóttir og Dagur Örn Fannarsson voru áætluð til keppni á EM innandyra en greindust því miður með kórónuveiruna deginum áður en flug hópsins var út á EM og náðu því ekki að taka þátt. Ragnar Þór Hafsteinsson varamaður í sveigboga karla liðinu náði ekki með svona stuttum fyrirvara að fá frí úr vinnu og því tók Gummi Guðjónsson hans stað í sveigboga karla liðinu. Í framhaldi af því var Valgerður Einarsdóttir Hjaltested uppfærð úr sveigboga kvenna U21 í sveigboga kvenna til að skapa lið. Og þar sem ekki var mögulegt að fá endurgreiðslu gjalda vegna þátttöku Marín Anítu var Valgerður skráð í berboga U21 kvenna til að nýta þátttökuréttinn og útlagðann kostnað sem ekki var mögulegt að fá endurgreiddann.

Úrslit í Afreksstefnu BFSÍ eru skilgreind sem 16 efstu einstaklingar/lið, tekið er miða af hæstu niðurstöðu keppanda á EM óháð keppnisgrein sem keppt var í (liða, einstaklinga, karla, kvenna, bogaflokki o.s.frv.). 12 þátttakendur komust í úrslit í opnum flokki (fullorðnir) og 7 þátttakendur í U21 flokki. Hér er hægt að finna þá sem komust í úrslit fyrir Ísland á EM í bogfimi 2022:

Opinn flokkur:

  • Haraldur Gústafsson Skaust – 9 sæti
  • Oliver Ormar Ingvarsson Boginn – 9 sæti
  • Guðný Gréta Eyþórsdóttir Skaust – 9 sæti
  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested Boginn – 9 sæti
  • Astrid Daxböck Boginn – 9 sæti
  • Alfreð Birgisson Akur – 8 sæti
  • Albert Ólafsson Boginn – 8 sæti
  • Gummi Guðjónsson Boginn – 8 sæti
  • Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir Boginn – 7 sæti
  • Ewa Ploszaj Boginn – 7 sæti
  • Astrid Daxböck Boginn – 7 sæti
  • Guðbjörg Reynisdóttir Hrói Höttur – 5 sæti

U21 flokkur

  • Daníel Baldursson Skaust – 8 sæti
  • Nóam Óli Stefánsson Hrói Höttur – 8 sæti
  • Nói Barkarson Boginn – 8 sæti
  • Freyja Dís Benediktsdóttir Boginn – 5 sæti
  • Sara Sigurðardóttir Boginn – 5 sæti
  • Valgerður Einarsdóttir Hjaltested Boginn – 5 sæti
  • Anna María Alfreðsdóttir Akur 4 sæti

Öll sex lið Íslands komust í úrslit á EM sem var ánægjulegt, en aðeins þrír einstaklingar komust í 16 manna úrslit sem var mun minna en áætlað var. En þeir einstaklingar sem komust í úrslit komust allir í 8 manna úrslit eða hærra.

Anna María Alfreðsdóttir keppti í brons útsláttar leik á EM innandyra í trissuboga U21 kvenna. Þetta er aðeins í annað sinn sem Íslendingur keppir um verðlaun á EM í bogfimi í U21 flokki, en fyrsta skiptið var Guðbjörg Reynisdóttir á EM á víðavangi 2019. Stelpan sem Anna María keppti við um bronsið var í öðru sæti á HM ungmenna og hefur þegar unnið til verðlauna með Tyrkneska landsliðinu í opnum flokki á öðrum stórmótum. Hægt er að sjá leikinn milli Önnu og þeirrar Tyrknesku um bronsið hér.

Guðbjörg Reynisdóttir náði besta árangri fyrir Ísland í einstaklings grein hingað til á Evrópumeistaramóti í opnum flokki (fullorðinna) með því að taka 5 sæti á mótinu. Guðbjörg keppir í berboga kvenna og þetta var í fyrsta sinn sem keppt var í berboga flokki á EM innandyra, en þeim flokki var bætt við á Evrópuþingi 2021.

Einnig var þetta besti árangur í öllum liðagreinum fyrir Ísland til dags á Evrópumeistaramóti.

Átta landsliðsmet (met í liðakeppni fyrir landslið) voru slegin á EM innandyra. Fjögur þeirra í opnum flokki fullorðinna (sveigbogi karla og kvenna undankeppni og trissubogi kvenna undankeppni og útsláttarkeppni) og fjögur þeirra í U21 flokki (trissubogi U21 karla og kvenna bæði í undankeppni og útsláttarkeppni). Einnig voru nokkur Íslandsmet slegin á mótinu s.s. Haraldur Gústafsson sló 9 ára gamalt Íslandsmet í sveigboga karla 50+.

Þetta var í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt á Evrópumeistaramóti innandyra. Mótinu var aflýst 2021 vegna kórónuveirufaraldursins, 2019 var það á gífurlega óhentugum stað sem erfitt og dýrt var að komast til og því lagði enginn Íslendingur för sína á EM 2019. 2017 var mótið of dýrt fyrir þátttakendur til að leggja för sína á mótið.

Í raun má því segja að megin ástæða þess að Ísland getur tekið þátt í EM innandyra séu niðurgreiðslur BFSÍ á gjöldum keppenda tengt þátttöku á mótinu. Sem gerir það nægilega aðlaðandi fyrir Íslenska keppendur að leggja för sína á EM. Þó er BFSÍ aðeins að stand undir um 25% af kostnaði keppenda tengt EM innandyra. Afrekssjóður ÍSÍ hefur stór áhrif á burði BFSÍ til þess að styðja við keppendur fjárhagslega í landsliðsverkefnum og framlag ríkisins í sjóðinn er algerlega ómissandi ef markmið Íslands er að setja sig á bekk meðal bestu þjóða í heiminum í íþróttum.

Þetta er stærsti hópur keppenda sem BFSÍ hefur sent á nokkuð mót til dags en það má að hluta rekja til þess að Evrópumeistaramót innandyra eru í raun tvö mót á sama tíma. EM fullorðinna og EM U21 á sama móti. Utandyra er þessum mótum skipt í tvö ótengd mót. 2022 verður EM utandyra (fullorðinna) haldið í Munich Þýskalandi í júní og EM ungmenna utandyra í Lilleshall í Þýskalandi í ágúst.

Gert er ráð fyrir því að Ísland muni skipa fullu liði á EM utandyra (fullorðina) en ólíklegt er að Ísland nái að skipa fullu liði á EM ungmenna utandyra. Ástæða þess er að miklu leiti að mun meiri ástundun er innandyra en utandyra á Íslandi og öðrum löndum á norðurhveli jarðar. Því er gert ráð fyrir því að mun auðveldara verði að skipa fullt lið keppenda á innandyra mót og að árangur Íslands verði meiri á innandyra mótum en utandyra.

Gaman er að geta þess að Nóam Óli Stefánsson er fyrsti trans einstaklingur sem vitað er til að keppt hafi með Íslensku landsliði óháð íþrótt. Nóam endaði í 17 sæti í einstaklingskeppni og 8 sæti í liðakeppni á EM U21 með liðsfélögum sínum Nóa Barkarsyni og Daníel Baldurssyni. Nóam hafði þegar keppt á Norðurlandameistaramóti ungmenna 2021, C landsliðsverkefni, í sínu skilgreinda kyni, en það mót var haldið sem fjarmót vegna kórónuveirufaraldursins. Nóam keppti fyrst á Íslandi í sínu skilgreinda kyni á Íslandsmeistaramóti utanhúss 2020.

Fleiri konur en karla kepptu á EM innandyra í bogfimi. Kynjahlutfall iðkenda er um 30% konur en konur eru mun virkari í mótaþátttöku en karlar og fleiri konur eru skilgreindar í landsliðshóp BFSÍ en karlar.

BFSÍ kom á samstarfi við mótshaldara EM um sameiginlegt heilbrigðisteymi Íslands og heimalands. Þetta er fyrsta slíka formlega samstarf sem vitað er til að hafi verið gert í íþróttinni. Sjúkraþjálfari Slóvenska landsliðsins þjónustaði Íslenska keppendur á mótinu. Keppendur nýttu sér þjónustuna mikið og var mikil ánægja meðal Íslensku keppendanna að hafa aðgengi að slíkri þjónustu.

Þá má segja að margt sé um tímamóta fréttir sem hægt væri að skrifa um tengt EM í bogfimi 2022. En með marga keppendur og mikið um niðurstöður er erfitt að gefa öllu sem gerist eins góða umfjöllun og hægt er. En þessi grein er ágætist samantekt af því helsta sem gerðist á EM í bogfimi.