Bogfimi í Bútan

Helsti mælikvarðinn sem notaður er á velmegun þjóða er verg þjóðarframleiðsla. Mælikvarðinn verg þjóðarframleiðsla hefur þann ókost að mæla einungis verðmæti þeirrar vöru og þjónustu sem gengur kaupum og sölu fyrir peninga í samfélaginu. Konungurinn í Bútan vildi hins vegar nota víðtækari mælikvarða sem tæki tillit til fleiri þátta í samfélaginu sem auka velsæld íbúanna. Konungurinn innleiddi því nýjan mælikvarða sem er verg þjóðarhamingja.

Hvernig fara Bútanir að því að auka verga þjóðarhamingju sína? Eitt af því sem lagt er áhersla á er að sjálfsögðu ástundun bogfimi. Aðrir þættir koma þar að vísu við sögu s.s. eins og umhverfisvernd en ekki verður fjallað um það í þessari grein.

Bogfimi er þjóðaríþrótt í Búthan og á íþróttin sér djúpar rætur í trú, sögu og menningu landsins. Bogfimi sé kennd í skólum og eru bogfimikeppnir vinsælar í landinu. Hvert hérað á sitt bogfimilið og bogfimivellir eru í hverju þorpi og keppa sveitarfélögin sín á milli í bogfimi. Bútanska útgáfan af Útsvari þ.e.a.s. lið sveitarfélaganna keppa í því að setja göt á skotmörk fremur en að standa á gati í spurningakeppni.

Leikreglur í þjóðlegri Bútanskri bogfimi eru nokkuð fráburgðnar þeim alþjóðlegu reglum sem við þekkjum hér á landi. Í þjóðlegum bogfimikeppnum í Bútan er kannski meira dansað heldur en skotið á markið. Bogfimikeppnir í Bútan eru liðakeppnir. Keppnisliðin standa hvort á móti öðru á 145 metra færi og skjóta á skotmark hvers annars. Rétt er að taka fram að þegar keppinautur skýtur sínum örvum þá fer liðið á bakvið vegg til þess að verða ekki fyrir örvum mótherjanna. Það gefur augaleið að á 145 metra færi þá rata ekki margar örvar í mark. Þegar lið hittir í mark keppninautarins þá er fagnað ærlega með dansi og söng. Menn eru með ákveðna æfða fagnaðardansa (Cham) eða “fögn” sem á að dansa og syngja þegar ör hittir í mark. Kannski má líkja þessum “fögnum” við það sem sést hefur í fótboltaleikjum t.d. hjá Stjörnunni í Garðabæ.  Kannski er þetta einhvers konar hláturjóga með boga.

Bogfimikeppnir í Bútan eru þannig danshátíðir og fagnaðarlæti sem er mjög ólíkt því sem við þekkjum hér á landi þegar menn sýna lítil svipbrigði í bogfimikeppnum sama hvernig gengur.

Bogfimimenning Bútana er merkileg og hefur verið gerð heimildarmynd um hana þar sem helstu sveigbogakonu Bútana er fylgt eftir.  Hún heitir Tshering Choden og keppti hún í bogfimi á tveimur Olympíuleikum (árin 2000 og 2004). Þess má geta að 90% íþróttamanna sem Bútan hefur sent á Olympíuleikanna hafa keppt í bogfimi. Umrædda heimildarmynd er að finna á Youtube: